148. löggjafarþing — 72. fundur,  8. júní 2018.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

565. mál
[15:17]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Hér er um að ræða frumvarp til að koma regluverki yfir svokallaðar rafmyntir sem ríkisstjórnin vill kalla sýndarfé. Það má rífast um orðanotkun seinna. Það er rétt að athuga í upphafi að enginn er mótfallinn því að rafmyntir falli undir peningaþvættislöggjöfina enda vill örugglega enginn stuðla að peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka eða nokkru því um líku, alla vega ekki hér á þinginu.

Að því leytinu til fagna ég frumvarpinu enda hef ég alla tíð, ja, ekki alla tíð, en um nokkra hríð kallað eftir því að búið verði til skynsamlegt regluverk utan um rafmyntir, bæði til að hlúa að þeirri nýsköpun sem er að eiga sér stað til að taka af allan vafa um lögmæti rafmynta en líka til að koma í veg fyrir misnotkun. Þetta er skref í rétta átt hvað það varðar.

En vandinn er, og það er gagnrýni sem ég neyðist til að koma fram með á frumvarpið, að þegar svona lög eru sett, sérstaklega sem lúta að nýrri tækni, þá verðum við að huga mjög vel og vandlega að því hvort lögin geti haft ótilætlaðar aukaverkanir. Ég tel að málinu sé þannig fyrir komið að það geti haft mjög neikvæðar aukaverkanir. Áhyggjurnar sem ég hef eru fyrst og fremst tvenns konar. Annars vegar er það tæknilegt álitaefni um gildissviðið, vegna þess að skilgreiningar sem notast er við eru ónákvæmar. Hins vegar eru það neikvæð áhrif sem geta orðið vegna mistúlkunar fólks á lögunum og hvaða áhrif það geti haft á hugsanlegar fjárfestingar á Íslandi. Þá er ég fyrst og fremst að horfa til þess að margir koma til Íslands erlendis frá, fyrirtæki og hvaðeina, sem stilla upp fyrirtækjum sem starfa í þessum rafmyntageira. Þau fyrirtæki hafa augljóslega mjög miklar áhyggjur af því að regluverkið sé óöruggt á einn eða annan hátt. Því miður hefur gætt svolítils misskilnings með það, bæði hvað sé löglegt og ólöglegt í dag og síðan mun það ágerast þegar þetta lagafrumvarp fer í gegn, þ.e. ef því verður ekki breytt lítillega.

Ég efast um að þessi tvö atriði komi til með að verða að einhverjum lagalegum álitaefnum fyrir dómstólum en hvort tveggja hefur töluverð áhrif á ásýnd Íslands fyrir þá sem eru að fjárfesta, jafnvel hundruð milljóna króna í uppbyggingu tengdri þessu, og hafa rennt hýru auga til Íslands. Þá er ég, nota bene, að tala um fullkomlega lögmæt fyrirtæki, ekki fyrirtæki sem stunda nokkurs konar peningaþvætti. Ég hef sérstakar áhyggjur af því að frumvarpið virðist vera komið fram með miklu hraði frá dómsmálaráðuneytinu, að því er virðist í tengslum við starfsemi örfárra fyrirtækja sem hafa eftir því sem ég best veit lagt sig fram við að starfa á sem lögmætastan hátt. Það er því svolítið eins og það sé einhver tilætlun um að reyna að beita einhverjum refsingum.

En að setja lög sem takmarka peningaþvætti með þeim hætti kemur ekki til með að hafa mikil áhrif á peningaþvætti sem fer fram með rafmyntum. Það er vissulega tilfellið að peningaþvætti hefur farið fram með rafmyntum í gegnum tíðina. En afleiðingin er kannski aðallega sú að ýmiss konar gögn sem eru geymd á svokallaðri bálkakeðju, sem heitir á ensku „blockchain“ verði eftirlitsskyld gagnvart Fjármálaeftirlitinu. Það er jafnvel tilfellið ef þau eru ekki fjármálalegs eðlis. Það er bara vegna þess að skilgreiningarnar sem er notast við eru ónákvæmar og rangar.

Sem dæmi um þetta væru snjallsamningakeðjur sem eru samningaréttarleg fyrirbæri geymd á opinberum stað. Það væru nafna- eða vörumerkingarskráningarkeðjur eins og „namecoin“ og annað því um líkt. Það væru upprunavottunarkeðjur eins og sú sem Matvælastofnun og Advania eru að vinna í að koma á til skráningar á lambaskrokkum, sem er áhugavert verkefni þó að ég hafi ákveðnar áhyggjur af því að það muni verða dýrasti listi Íslandssögunnar. Síðan eru svokallaðar B2B-viðskiptakeðjur sem fjalla um viðskipti milli fyrirtækja og skuldastöðu milli þeirra, menntunar- og hæfnisvottunarkeðjur á borð við ODEM og fleira. Það er alveg fullt af tilfellum þar sem verið er að nota bálkakeðjur af þessu tagi en ekki í fjármálalegum tilgangi.

Það er skilningur minn að hugsunin sé ekki að regla þessi fyrirbæri en það er ekki augljóst út frá skilgreiningunum sem er verið að notast við. Það er náttúrlega augljóst að Fjármálaeftirlitið á ekki að þurfa að standa í því að veita eftirlit með þessum hlutum, með t.d. listum af lambaskrokkum. Það væri tímasóun. Og kannski segir einhver, ókei, Fjármálaeftirlitið á augljóslega ekki að fylgjast með þessum hlutum þannig að það mun bara ekkert aðhafast. En engu að síður er hættan sú að þetta verði íþyngjandi lög og íþyngjandi aðgerðir stjórnvalda sem koma í veg fyrir að fólk ráðist í að reka fyrirtæki af þessu tagi.

Það er hreinlega best að við pössum upp á að í skilgreiningum sem notast er við verði nákvæmur skilningur og deilt heilt yfir hvað verið er að tala um. Þannig að skilningur minn frá ráðuneytinu og allri umræðu er að frumvarpið á ekki, jafnvel þó að það fari í gegn óbreytt, að ná til bálkakeðja sem ekki eru fjármálalegs eðlis.

Varðandi athugasemdir ráðuneytisins um að þetta eigi ekki við þá virðist það byggt á þeirri þreyttu og ótrúverðugu venju í íslenskri lagahefð að lagaákvæði þýði það sem ráðuneytið meinti frekar en það sem stendur raunverulega í frumvarpinu. Þetta þurfum við kannski að þola, en ef við ætlum að standa okkur betur í alþjóðaviðskiptum en við höfum gert er betra fyrir okkur að hafa hlutina skýra og taka af allan vafa.

Ein opin spurning sem kemur fram í frumvarpinu, eða ætti að lesast út úr því, er: Hverjir eru það sem teljast vera þjónustuaðilar stafrænna veskja? Eins og skilgreiningin er gæti það verið hugbúnaðarhús, gagnagrunnsfyrirtæki, nýsköpunarfyrirtæki af hvaða tagi sem er sem nýtir bálkakerfatæknina til að fjármagna sjálft sig eða bjóða upp á einhvers konar þjónustu. Það gæti líka verið einhvers konar bálkanámuvinnslur, eða það sem kallað er „blockchain miner“ sem fyrirtæki eins og Landsvirkjun og vissulega íslenska ríkið í gegnum skatta hafa í dag umtalsverðar tekjur af.

Nú er spurning hvort slík fyrirtæki komi til með að færast til annarra landa ef námuvinnslan verður skráningarskyld eða mikið og þungt regluverk verður allt í einu til í kringum það að búa til það sem nægilega mótíveraður 15 ára krakki getur í rauninni búið til heima hjá sér á örfáum klukkutímum. Það að slíkt verði skráningar- eða eftirlitsskylt hjá Fjármálaeftirlitinu stenst bara enga skoðun. Þeir aðilar eru síðan neyddir til að viðhalda peningaþvættisathugunum gagnvart öllum sínum viðskiptavinum og í tilfelli hugbúnaðarhúsa sem eru kannski með fullt af viðskiptavinum af ýmsu tagi og þetta bálkakeðjuverkefni er kannski eitt af örfáum, ég er að hugsa t.d. til fyrirtækja eins og Advania, þá verður allt í einu einhver minni háttar aðgerð af þeirra hálfu til þess að breyta öllu eðli starfseminnar hjá þeim. Auðvitað er það ekki tilgangur laganna en þetta er hugsanleg aukaafurð.

Undirliggjandi í öllu þessu er sú spurning ef gera á peningaþvættisathuganir á þessu svokallaða sýndarfé eða rafmyntum: Er með því verið að segja að sýndarfé sé peningar? Ef svo er ekki held ég að skilgreina þurfi sýndarfé töluvert nákvæmar. Og ef svo er held ég að það leiði okkur á mjög skrýtnar slóðir hvað varðar almenna umræðu um gjaldmiðla og hvernig þeir virka.

Þess má geta að undir sömu peningaþvættislöggjöf falla fyrirtæki eins og bílasalar og fasteignasalar sem þurfa að staðfesta viðskiptavini sína upp að ákveðnu marki. En það er enginn sem gerir þá kröfu að gerð sé peningaþvættisathugun á húsum eða bílum, enda væri það óskynsamlegt. Auðvitað ætti það sama að gilda um annan varning eins og sýndarfé hugsanlega er, eftir því hvernig maður skilgreinir það.

Þetta er auðvitað flókið. Við erum að tala um nýja tækni. Bálkakeðja, þetta hljómar eins og einhverjir galdrar en er í rauninni bara rosalega „fancy“ listi nema aðeins flóknari. Listi af færslum þar sem hver færsla, ásamt því að innihalda einhverjar upplýsingar, inniheldur dulmálsfræðilega samantekt á fyrri færslu þannig að erfiðara sé eða ómögulegt að breyta færslum aftur í tímann á auðveldan hátt. Stafrænt veski er safn af einkalyklum, þ.e. dulmálslyklum, eiganda veskisins en veskið inniheldur í raun enga eiginlega peninga eða sýndarfé, heldur bara lykil sem veitir aðgengi að ákveðnum færslum sem sýna að færslan hafi verið send til veskisins sem um ræðir. Skilgreiningin á bálkakerfi í frumvarpinu er hreinlega tæknilega röng. Það vantar síðan alfarið skilgreiningu á hugtakinu stafrænt veski, sem gerir að verkum að hægt er að túlka það fyrirbæri á nákvæmlega hvaða hátt sem er, sem fólki dettur í hug.

Forseti. Breytingartillögur nefndarinnar eru allar góðar. Það er fínt að það komi skýrt fram. Ég þakka efnahags- og viðskiptanefnd fyrir að vinna málið á ágætishátt og taka tillit til margra af þeim athugasemdum sem komu. Ég gagnrýni svolítið að nefndin hafi tekið dómsmálaráðuneytið alveg trúanlegt í öllu, en flækjurnar eru margar og við verðum hreinlega að vanda okkur vel. Ég tek undir allar þær athugasemdir og vil meina að með þeim náist að laga flest en þó ekki allt sem er að.

Ég hef lagt fram til skrifstofu þingsins breytingartillögur, sem koma væntanlega til útbýtingar, sem snúa að því að bæta úr þeim annmörkum sem eru á málinu og þær eru ekki umfangsmiklar. Þetta eru pínulitlar lagfæringar. Það þarf lítið til að laga þetta og ég vona að þær breytingartillögur verði samþykktar enda eru þær byggðar á tæknilegri þekkingu og skynsemi, vil ég meina. En verði þær ekki samþykktar mun ég fara fram á að málið verði tekið til nefndar milli 2. og 3. umr. vegna þess að ég vil endilega reyna að mjaka þessu í rétta átt því að þetta er í fyrsta skipti sem við erum að setja lög um þessa tækni og ef við gerum það rangt mun það skapa mjög vont fordæmi.