148. löggjafarþing — 72. fundur,  8. júní 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[15:45]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um rafrettur og áfyllingar fyrir þær. Ég ætla ekki að reifa nefndarálit minni hlutans sérstaklega, það liggur fyrir á vef Alþingis og getur fólk lesið það, en þar kemur fram það sem minni hluti nefndarinnar hefði helst viljað ná í gegn. Það hefur náðst ofboðslega góð samstaða um sum atriði og er ég mjög sátt við hvar við höfum endað með þetta. Þetta er frumvarp sem kom fyrst inn til meðferðar þingsins frá heilbrigðisráðherra í febrúar og hefur vinna við málið staðið yfir síðan.

Velferðarnefnd hefur oft fundað um málið og fjöldi umsagna barst. Þá komu fyrir nefndina margir gestir og sumir að utan með sérhæfingu í rafrettum og notkun þeirra. Má þar nefnd Lindu Bold og prófessor John Britton og var ótrúlega gott fyrir vinnuna að fá þessa aðila á fund nefndarinnar til að lýsa og deila með okkur sérþekkingu sinni á þessu máli. Nokkurn tíma hefur tekið að ná sátt í málinu, en fyrir liggja þrjú nefndarálit, eitt þeirra frá meiri hluta nefndarinnar, eitt frá minni hluta og svo framhaldsálit. Öll hafa þessi nefndarálit að geyma tilteknar breytingartillögur sem nauðsynlegt er að líta til. Nú liggur fyrir sátt um lyktir þeirra breytingartillagna er lagðar hafa verið til, en í því skyni að ná fram sem bestri niðurstöðu frá öllum hlutaðeigandi eru nokkrar breytingartillögur sem ég vil víkja hér sérstaklega að.

Þar má fyrst nefna þær breytingartillögur meiri hlutans sem hafa þegar verið felldar út. Nefna má bann við auglýsingum á netsíðum og samfélagsmiðlum, en samstaða náðist um að slík takmörkun væri of víðtæk og var ákveðið að hún skyldi felld út. Þá vil ég víkja sérstaklega að breytingartillögu um að bann skyldi vera við bragðefnum sem höfði sérstaklega til barna og ungmenna. Rök mætti færa fyrir því að flest eða öll bragðefni gætu á einhvern hátt höfðað til barna og gæti slíkt bann því haft í för með sér afar víðtækar afleiðingar hvað varðar aðgengi að nikótínvökva. Ákveðið var í stað þess að setja bann við slíkum bragðefnum að veita ráðherra heimild í reglugerð til að setja tilteknar reglur um hvernig markaðssetningu skyldi háttað og að hægt væri að breyta umbúðum ef þær væru sérstaklega hannaðar til þess að höfða til barna, eitthvað sem heitir Húbbabúbba-vökvi myndi þá mögulega heita eitthvað annað til þess að það myndi ekki höfða til barna. Með því er öryggi barna tryggt, en á sama tíma stuðlað að því að allir sem þurfi geti haft aðgang að þeim vökva sem þeir kjósa, enda hefur komið fram í máli sérfræðinga, sem komu fyrir nefndina, að bragðefni eru mikilvægur þáttur í að laða reykingafólk að rafrettum, styrkir því rafretturnar sem skaðaminnkunarúrræði fyrir reykingafólk. Það er mjög mikilvægt. Það er ekkert sérlega gott bragð af nikótíni. Ég efast um að nokkur maður hafi áhuga á að veipa hreint nikótín án nokkurra bragðefna. Þá verði samþykkt breytingartillaga þess efnis að skilgreiningunni á rafrettum verði breytt svo að þær verði ekki víðtækari en nauðsyn er. Það kemur sem sagt fram í nefndaráliti minni hlutans að breyta eigi skilgreiningunni og náðist samstaða um að gera það.

Hvað varðar stærðir áfyllinga og tanka var það álit minni hlutans að þær stærðir sem nefndar voru í frumvarpinu væru of íþyngjandi fyrir notendur rafrettna. Þannig væri 10 millilítra áfyllingar mjög litlar og til þess fallnar að minnka öryggi, auka kostnað neytenda og auka plastmengun. Tveggja millilítra tankastærðir væru of litlar, enda væru flestar rafrettur í dag með stærri tanka. Sátt náðist um að ekki væri þörf á því að setja slíkar stærðartakmarkanir í lög en að rétt væri að heimila ráðherra að setja slíkar takmarkanir síðar ef brýn nauðsyn myndi krefja. Í framhaldsáliti nefndarinnar er lögð áhersla á að ráðherra setji ekki slíka reglugerð nema nauðsyn krefji, þá einungis þegar og ef alþjóðlegar skuldbindingar Íslands geri það nauðsynlegt. Ég býst við, og sá að ráðherra bað hér um orðið, að hún komi hér upp í andsvör við mig til að skýra afstöðu sína varðandi stærðartakmarkanir og reglugerðarheimildir sínar, að ekki verði farið í þá vinnu að takmarka þessar stærðir nema Ísland verði skyldað til þess samkvæmt alþjóðalögum.

Nú er það svo að sú tilskipun sem lög þessi byggja á hefur ekki verið tekin upp í sameiginlegu EES-nefndina og hvílir því ekki bein lagaskylda á Íslandi að innleiða slíkar stærðartakmarkanir. Þá er möguleiki á að þær verði endurskoðaðar á komandi misserum. Er það mín von að svo verði enda er afar mikilvægt að tryggja að aðgangur notenda að úrræðinu sé tryggður.

Minni hluti nefndarinnar lagði einnig til að gerð yrði sú breyting á frumvarpinu að fellt væri út bann við notkun rafrettna í þjónusturýmum félagasamtaka og fyrirtækja. Sátt náðist um að fella út bann við notkun rafrettna í þjónusturýmum fyrirtækja, enda hafa ekki farið fram rannsóknir sem sýna fram á að nokkur skaði geti hlotist af innöndun gufu úr rafrettum. Því myndu takmarkanir á því hvort nota mætti rafrettur í þjónusturýmum einkafyrirtækja teljast óþarflega íþyngjandi. Hvað varðar veitingastaði og skemmtistaði er mín skoðun sú að bann við notkun rafrettna á slíkum stöðum myndi vera of íþyngjandi. Því mun ég og Píratar greiða atkvæði gegn þeirri breytingu, en það mun verða kosið sérstaklega um það, enda er þetta kurteisisatriði frekar en heilsutengt og ættu eigendur skemmtistaða að fá að ákveða þetta sjálfir.

Þegar við setjum lög á borð við þau sem hér eru til umræðu er afar mikilvægt að við gætum jafnvægis á milli þeirra hagsmuna sem liggja undir. Ég vil einnig minnast á að sú breyting verði gerð að leyft verði að reykja í fangelsum til dæmis sem er líka mjög mikilvægt. Það er rétt að það er mikilvægt að vernda börn sem aldrei hafa notað tóbak frá því að byrja að nota rafrettur, en ekki er síður mikilvægt að í boði séu fjölbreytt úrræði fyrir þá sem vilja hætta tóbaksreykingum. Það verður að gæta jafnræðis á milli þessara tveggja atriða. Rafrettur eru í eðli sínu skaðaminnkandi úrræði og við verðum að standa vörð um það sem slíkt. Of íþyngjandi löggjöf myndi gefa röng skilaboð til þeirra sem eru að íhuga að skipta yfir í rafrettur og má alls ekki leggja rafrettur að jöfnu við tóbaksreykingar. Það myndi einfaldlega koma niður á lýðheilsu landsmanna.

Ég fagna því að við höfum náð að gera nauðsynlegar breytingar á þessu frumvarpi sem muni tryggja aðgengi notenda að því mikilvæga úrræði sem rafrettur eru. Mig langar til að þakka sérstaklega ráðherra og nefndinni og hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir að taka vel á móti þessum breytingum og fyrir að vinna þetta mál á þennan hátt og ná þessari lendingu. Ég tek einnig fram að nefndarálit minni hlutans gekk lengra og var með aðrar breytingartillögur sem við náðum ekki að semja um; þeir sem voru með á því áliti voru hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson og sú sem hér stendur.