148. löggjafarþing — 72. fundur,  8. júní 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[17:04]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í umræðum um þetta mál fyrr í dag lét ég þung orð falla um tilurð þess og meðferð. Ég vil nota þetta tækifæri til að skýra afstöðu mína vegna þess að af orðum mínum mátti skilja að ég kynni ef til vill ekki að meta þá miklu og vönduðu vinnu sem sannarlega hefur farið fram í meðförum þingsins í tengslum við þetta mál. Gagnrýni mín beinist fyrst og fremst að þeirri Evróputilskipun sem frumvarpið byggir á.

Ég veit þó að hv. velferðarnefnd, formaður hennar og varaformaður, ásamt hæstv. ráðherra Svandísi Svavarsdóttur, hefur lagt á sig mikla vinnu til að ná sem bestri niðurstöðu í málinu. Ég sé það, ég veit það og ég þekki það og fagna því. Þess vegna mun ég og þingflokkur Pírata styðja við þetta mál. Takk.