148. löggjafarþing — 72. fundur,  8. júní 2018.

um fundarstjórn.

[17:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Það er ekki nokkur einasti bragur á því hvernig þinghaldi er háttað hér í dag. Hringt er til þingfundar áður en gögnin sem á að fara að fjalla um í þingsal eru tilbúin. Boðað er til nefndafunda á morgun jafnvel þótt menn fái upplýsingar um að nefndirnar geti ekki mætt til fundar og ekki varamenn. Samt boða formenn nefnda til funda. Það er búið að tilkynna um fundi á sunnudaginn, jafnvel þó að menn viti að þá komast þingmenn ekki heldur til fundar. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvers konar fyrirkomulag eigi að vera hér undir lokin. Liggur stjórnarliðum svo rosalega mikið á að komast héðan út, til að fá frið fyrir stjórnarandstöðunni, að öllum venjubundnum reglum er ýtt til hliðar? Ég hvet herra forseta til að láta þingið hætta með aðeins meiri sóma en hér stefnir í.