148. löggjafarþing — 72. fundur,  8. júní 2018.

um fundarstjórn.

[17:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt að nokkur hraði hefur verið á málum hér í dag. Á hinn bóginn tek ég undir það með hæstv. forseta að gangur mála hefur verið með þeim hætti í meginatriðum sem rætt var á fundi þingflokksformanna í morgun og raunar samkvæmt mínum skilningi líka í gær. Það var ljóst að í gær náðist ákveðið samkomulag um þinglok eða afgreiðslu mála og framgang. Ég veit ekki betur en að það sem verið hefur á döfinni í dag hafi verið alveg í samræmi við það sem þar var um rætt. Það sama á við varðandi daginn í dag, á fundi þingflokksformanna í morgun fór forseti ágætlega yfir það hvernig hann sæi daginn fyrir sér. Ég skildi það svo að samkomulag væri um þá málsmeðferð og ef eitthvað er hafa hlutirnir gengið ívið hægar fyrir sig en gert var ráð fyrir eins og forseti lagði þetta upp í morgun.