148. löggjafarþing — 73. fundur,  8. júní 2018.

veiðigjald.

648. mál
[18:05]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Þetta veiðigjaldamál allt er með miklum ólíkindum. Það er vissulega rétt að frumvarp atvinnuveganefndar er seint fram komið á vormánuðum þessa þings. Ég vil reyndar meina að þetta mál sé að minnsta kosti ári of seint fram komið því að það var alla vega fyrir rúmi ári síðan sem ég og fleiri hófum máls á því hversu alvarleg staðan væri fyrir framan okkur.

Það er staðreyndin. Staðan í sjávarbyggðum landsins er grafalvarleg. Vandinn mun ekkert hverfa. Það eina sem liggur fyrir í þessu máli, með þessu frumvarpi, er að einungis er verið að fresta því til haustins að taka á honum. Það er staðreynd. Á meðan mun samkeppnishæfni landsins halda áfram að versna í sjávarútveginum. Á meðan mun einyrkjum halda áfram að fækka og samþjöppun aukast. Á meðan mun starfsöryggi fjölda starfsfólks í sjávarútvegi áfram verða í uppnámi. Og áfram heldur los í byggðafestu að grafa um sig um landið allt.

Samfélagslega tjónið sem af þessari himinháu skattlagningu veiðigjalda leiðir er ómælt og fæst ekki bætt eftir á, því miður. Þetta eru þeir almannahagsmunir sem eru undir í þessu máli. Raunverulegir og brýnir almannahagsmunir um landið allt.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra mun leggja fram frumvarp strax í haust til að koma á betri skikkan á álagningu veiðigjalda og lækka álögð veiðigjöld á þessu yfirstandandi fiskveiðiári. Það frumvarp verður að lögum fyrir áramót. Af þeim sökum og þeim sökum einum fellst ég á það lögfræðilega bix sem þetta frumvarp er.