148. löggjafarþing — 73. fundur,  8. júní 2018.

veiðigjald.

648. mál
[18:19]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Það frumvarp sem hér liggur fyrir á rót sína í samkomulagi á milli flokkanna sem starfa á Alþingi. Flokkur fólksins á aðild að því samkomulagi og mun styðja frumvarpið á þeim grundvelli.

Það er ekki efni til þess að ræða ítarlega á þessari stundu efni frumvarpsins, en ég vil þó láta þess getið að við berum hag þeirra fyrirtækja fyrir brjósti sem eiga í mestum erfiðleikum, það eru litlu fyrirtækin og hin meðalstóru. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram í ræðum og í breytingartillögu Sigurðar Páls Jónssonar, að hluti þessa vanda á rætur að rekja til styrkingar á gengi krónunnar sem orðið hefur á undanförnum misserum. Það setur útflutningsgreinar, samkeppnisgreinar, sprotafyrirtæki, í mjög erfiða stöðu og er sérstakt vandamál sem þarf að ræða út af fyrir sig.

Herra forseti. Það verður ekki hjá því komist að gera alvarlegar athugasemdir við framgöngu ríkisstjórnarinnar sem varpaði þessu máli eins og hverri annarri sprengju, eins og það hefur verið orðað, inn á Alþingi eftir sveitarstjórnarkosningar og örskömmu fyrir áætluð þinglok. En við blasir að málið kemur fyrir að nýju á hausti komanda. Við í Flokki fólksins viljum stuðla að farsælli niðurstöðu og munum leggja okkur fram í því efni.