148. löggjafarþing — 73. fundur,  8. júní 2018.

veiðigjald.

648. mál
[18:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Þó að hv. þm. Óli Björn Kárason sé ekki hér í salnum og ég hafi ekki náð að heyra hvert orð af ræðu hans hér áðan verð ég samt aðeins að koma in á það að mér þyki það ansi snautlegt að stjórnarandstöðunni sé kennt um að veiðigjöld fái ekki efnislega umræðu þegar öllum má ljóst vera að ástæða þess að þetta mál er nú fyrst að koma inn í þingið er sú að stjórnarflokkarnir lögðu ekki í að það kæmi fram fyrir sveitarstjórnarkosningar. Þetta vita allir sem eru hér inni og þingmenn stjórnarflokkanna enn betur en þingmenn stjórnarandstöðunnar. Þannig að ég vísa þessu bara til föðurhúsanna hjá mínum ágæta félaga, hv. þm. Óla Birni Kárasyni.

Það var áhugavert að sjá hv. þm. Teit Björn Einarsson koma í pontu og lýsa yfir þeirri staðföstu trú, sem ég gef mér að byggð sé á samtölum við hæstv. sjávarútvegsráðherra, samflokksmann hans, að í haust verði lagt fram frumvarp sem verði með ákveðnum útfærslum og hætti. Af því að ég veit að hæstv. ráðherra er hér næsti maður í pontu á eftir mér vil ég nota þetta tækifæri til að hvetja hann til þess að fara aðeins inn á þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um hvernig þetta verði útfært. Í hinu orðinu er nefnilega sagt að fara eigi í mikið samstarf um það hvernig þessu verði háttað.

Innan stjórnarflokkanna eru skiptar skoðanir, það hefur legið fyrir. Innan stjórnarandstöðunnar eru sömuleiðis skiptar skoðanir. Þetta er flókið mál. Við hjá Miðflokknum höfum haft af þessu miklar áhyggjur, þ.e. að veiðigjöldin séu að leggja byrðar á útgerðina, sérstaklega á litlu og millistóru útgerðina, sem eru henni ofviða. Það er tónninn sem við heyrum alls staðar, sama hvaðan hlustað er, að rekstraraðilar lítilla og smærri útgerða eru í stórkostlegum vandræðum þessi misserin. Það eru margvíslegir þættir sem koma þar inn, en stærsta breytan er auðvitað sú að útreikningur veiðigjalda miðar við rekstrarafkomu alls annars tíma en við lifum á núna. Það er í þessu ljósi sem hv. þm. Sigurður Páll Jónsson, fulltrúi Miðflokksins í atvinnuveganefnd, leggur fram breytingartillögu við þetta frumvarp þar sem þó er lagt til að svokallaður skuldaafsláttur, eins og hann er þekktur í umræðunni hvað veiðigjöld varðar, verði innleiddur aftur. Hann rann út við lok síðasta fiskveiðiárs og það hjálpar að nokkru marki þeim útgerðum sem harðastan lífróður heyja núna. Ef við horfum yfir þingið þá trúi ég ekki öðru en að þingmenn hafi skilning og vilja til þess að liðka til með þessum útgerðum. Samþjöppunin er að verða bara þessa dagana, þessar vikurnar, þessa mánuðina. Veiðiheimildir eru að fara frá litlum og millistórum útgerðum til stærri og það mun halda áfram á meðan ekki er brugðist við.

Þessi tillaga okkar um að innleiða skuldaafsláttinn aftur til næstu áramóta eða þar til Alþingi hefur samþykkt ný lög um veiðigjöld er plástur á bágtið, skulum við segja, en ekki nægjanlegt. Við verðum að fara í grundvallarendurskoðun á þessari veiðigjaldanálgun í haust og væri áhugavert að heyra frá hæstv. ráðherra, sem kemur næstur í pontu, hvort einhvers lags samningar eða útfærsla liggi þegar á borðinu. Það mátti ráða af orðum hv. þm. Teits Björns Einarssonar hér rétt áðan að svo væri, (Gripið fram í.)um útfærslu og lækkun, að samþykkt verði lög fyrir áramót um nýja útfærslu á veiðigjöldum. Framsetning hv. þingmanns skildi ekki eftir neitt svigrúm til túlkunar hvað það varðar.

Að endingu hvet ég þingheim til að fylkja sér á bak við þessa breytingartillögu, þ.e. að skuldaafslátturinn verði innleiddur aftur. Ég veit að margir hér inni eru þeirrar skoðunar að það myndi liðka fyrir. Ég brýni þingmenn til að standa með litlum og millistórum útgerðum hvað þetta varðar.