148. löggjafarþing — 74. fundur,  8. júní 2018.

veiðigjald.

648. mál
[18:57]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Herra forseti. Mér hefur þótt dapurt síðustu daga að hlýða á þann málflutning sem hér hefur verið uppi og talað um heila atvinnugrein eins og hún væri vettvangur örfárra auðjöfra sem stæðu og söfnuðu auð með augun rauð. Þetta eru fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum úti um allt land sem eru lifibrauð samfélaganna úti um landið. Þau standa mörg hver frammi fyrir gríðarlegum vanda. Útflutningstekjur sjávarútvegsins hafa verið að dragast saman og ekki verið minni síðan 2008. Veiðigjaldið er að tvöfaldast og hefur tvöfaldast á milli ára. Tekjuskattur og veiðigjöld eru núna samtals 60% af hagnaði sjávarútvegsfyrirtækja. Ég ætla að greiða atkvæði með þessu í trausti þess að þetta sé nákvæmlega samkvæmt orðanna hljóðan; frestur á bráðnauðsynlegum aðgerðum til að bregðast við vandanum.