148. löggjafarþing — 74. fundur,  8. júní 2018.

veiðigjald.

648. mál
[19:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Það er best að ég geri það. Ég ætlaði að segja annað en það er best að ég svari. Það eru auðvitað mikil vonbrigði hvernig þetta mál allt saman hefur unnist. Þar verður ríkisstjórnin að líta í eigin barm. Það er ekki hægt að kenna okkur stjórnarandstöðunni um að lítill tími hafi unnist til þeirra mála. (Gripið fram í: Af hverju stoppar þetta?) Af hverju stoppar þetta að komast í umræðu? (Forseti hringir.) Þetta stoppaði auðvitað á því að áður en hlé var gert fyrir sveitarstjórnarkosningar var gert samkomulag (Gripið fram í: En þessi breytingartillaga ...) sem kom síðan á daginn að (Gripið fram í.) aðeins annar aðilinn ætlaði að standa við.

(Forseti (SJS): Forseti biður þingmenn um að sitja á strák sínum.)

Þar ætluðu ríkisstjórnarflokkarnir ekki að standa við það sem samið hafði verið um við stjórnarandstöðuflokkana. Sú afstaða Miðflokksins að veita ekki flýtimeðferð fyrir málið inn á dagskrá helgaðist eingöngu af því. Það liggur alveg fyrir og hefur alltaf legið fyrir að við teljum að veiðigjaldsmálin þurfi að koma til umræðu og lagfæringar. Það er hreinlega til skammar hvernig málið var dregið, þ.e. að menn legðu ekki í þá umræðu fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Þá hefðum við fengið efnislega umræðu sem hefði gert málinu gott í staðinn fyrir þau handarbakavinnubrögð sem við höfum orðið vitni að hérna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)