148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

293. mál
[11:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum frá meiri hluta velferðarnefndar. Ég mun einnig kynna breytingartillögu við 4. gr. frumvarpsins.

Mál þetta er ekki alveg nýtt af nálinni. Það hefur áður komið fram á þinginu og hv. velferðarnefnd því fjallað um það áður. Nefndin tók á móti töluverðum hópi gesta og bárust allnokkrar umsagnir, eins og kemur fram í nefndarálitinu. Markmið frumvarpsins er að koma í veg fyrir að tiltekin efni og lyf séu notuð til að bæta líkamlega frammistöðu og tryggja að meðferð og notkun slíkra efna og lyfja valdi ekki heilsutjóni ásamt því að koma í veg fyrir ólögmæta markaðssetningu þeirra. Frumvarpinu er m.a. ætlað að hafa áhrif á þá sem standa að ólöglegum innflutningi, útflutningi, sölu, kaupum, skiptum, afhendingu, móttöku, framleiðslu og vörslu framangreindra lyfja.

Eins og áður sagði bárust nefndinni nokkrar umsagnir sem voru jákvæðar í garð frumvarpsins. Hins vegar var greinilegt á fundum nefndarinnar að menn höfðu áhyggjur af refsiheimildum, m.a. þeim sem sneru að notendum þessara efna. Þar kom til að mynda fram að mönnum þætti ekki eðlilegt að jafn þungar refsingar, eða jafnvel refsingar yfirleitt, væru fyrir það sem mætti kalla notendaskammta, þá miklu fremur að refsingarnar lægju við sölu, innflutningi, framleiðslu o.s.frv.

Meiri hluti nefndarinnar gerir ekki breytingartillögu en hins vegar gerir undirritaður eftirfarandi breytingartillögu við 4. gr., þannig að á eftir 2. mgr. 4. gr. komi ný svohljóðandi málsgrein, með leyfi forseta:

„Varsla eða meðferð efna og lyfja skv. 2. gr. skal aðeins vera refsiverð þegar haldlagt magn efna er umfram það sem talist getur til eigin neyslu.“

Þarna er í raun verið að setja undir þann leka eða galla að menn geti verið sektaðir, fangelsaðir eða refsað fyrir mjög litla skammta. Í því felst ekki það álit, a.m.k. ekki mitt og ég þori nánast að fullyrða meiri hluta nefndarinnar, að í einhverjum tilfellum sé eðlilegt að nota slík lyf sem frammistöðubætandi, alls ekki. Í því felst ekki sú afstaða heldur hin, að þeir sem halda slíkum efnum og lyfjum að fólki, flytja þau inn og selja, séu hinir raunverulegu sökudólgar og eigi þess vegna að standa reikningsskil gjörða sinna.

Ég ætla ekki að hafa frekari orð um efnið og þetta mál en áskil mér rétt til að koma inn í umræðuna frekar ef þurfa þykir.