148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

skilyrðislaus grunnframfærsla.

9. mál
[11:23]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég get í sjálfu sér fagnað þessari tillögu. Ég tel einsýnt að við þurfum að skoða þennan möguleika sem viðbrögð við breytingum í framtíðinni. Hins vegar finnst mér að borgaralaun megi ekki vera markmið í sjálfu sér. Við eigum eftir að ræða ýmislegt í tengslum við það hvað þau myndu svo hafa í för með sér. Hvert er hlutverk mannsins, bara í tilverunni? Hver er tilgangur hans? Við stöndum frammi fyrir brjálæðislegum breytingum, miklu meiri breytingum en almenningur gerir sér almennt grein fyrir. Þessi stafræna bylting, stafræna þróun, er í raun allt annars konar en hin hefðbundna iðnbylting þar sem vélar leystu vissulega vöðvaafl af hólmi og fólk flykktist úr sveitum og inn í borgir og til urðu ýmiss konar vandamál sem okkur auðnaðist að leysa, m.a. með því að leggja grunn að almennri skólamenntun sem leiddi svo aftur til þess að almenningur hafði það betra og betra.

Nú horfumst við hins vegar í augu við tækni sem mun ekki einungis leysa vöðvaaflið af hólmi heldur hugaraflið að einhverju leyti, þ.e. við erum að fara að mæta tækni og tækjum sem í raun geta hugsað, geta lært, jafnvel hraðar en maðurinn getur. Við höfum séð forrit sem eru hlaðin og fyllt af upplýsingum um tiltekinn hlut, eins og t.d. skák eða einhverja aðra leiki, og vélin sjálf nær að koma sér upp meiri þekkingu og færni en manninum hefur auðnast á þrjú til fjögur þúsund árum. Við erum þannig klárlega að fara að horfast í augu við mjög sérkennilegan hlut.

Þar að auki er hin stafræna vara allt öðruvísi en sú vara sem við höfum hingað til þekkt þar sem búin er til prótótýpa og þú þarft svo menn eða vélar til að búa til sams konar eintak af vörunni. Það tekur tíma og þarf mannafla til. Nú fer tiltölulega langur tími í að búa til eina prótótýpu af þessari stafrænu vöru en eftir það geturðu bara kóperað hana og ýtt á enter-takkann og búið til óteljandi eintök af henni. Við erum greinilega að horfast í augu við eitthvað sem við höfum ekki þekkt hingað til.

Í þessu felast gríðarleg tækifæri. Við getum aukið framleiðni stórkostlega, sem er alveg nauðsynlegt til að takast á við breytingu á aldurssamsetningu heimsins og þjóðarinnar. Við getum líka minnkað vistspor, búið til vistvænni framleiðslu sem er nauðsynlegt ef við ætlum að takast á við loftslagsógnina. Og í þriðja lagi er þetta líka færi til þess að dreifa gæðunum jafnar, minnka muninn á milli fátækari og ríkari hluta almennings, ekki bara hér á Íslandi heldur á milli þjóða líka. Í því felst líka sú áskorun að við setjum okkur siðferðisleg markmið.

Í þessu felast nefnilega stórkostlegar ógnir. Ef ekkert er að gert, t.d. í skattkerfinu, verður sú niðurstaða einfaldlega uppi að auðurinn safnast á hendur þeirra sem eiga framleiðslutækni, eiga tæknina, og almenningur er skilinn út undan. Samneyslan hrynur og ekkert verður til skiptanna. Hver á þá að borga borgaralaunin? Forsenda þess að við getum tekist á við þessa framtíð er að við tökum í alvöru pólitíska umræðu um skattkerfið, hlutverk þess. Ætlum við áfram einungis að skattleggja vinnustundir launafólks eða munum við skattleggja framleiðslueiningar eða róbota? Það er forsenda þess að við getum svo aftur greitt öllum borgaralaun.

Að því sögðu fagna ég þessari umræðu. Mér finnst hún hins vegar algerlega eiga heima í framtíðarnefndinni því að borgaralaun eru hvorki markmið í sjálfu sér né afmörkuð lausn heldur þarf að spila hana í góðu samspili við ótal aðrar lausnir og ekki síst þær afleiðingar sem við horfum (Forseti hringir.) fram á með þessari brjálæðislegu nýju tækni sem er spennandi en líka dálítið ógnvekjandi.