148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

skilyrðislaus grunnframfærsla.

9. mál
[11:28]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Umræðan um borgaralaun er mjög áhugaverð. Það er alveg ljóst, eins og hv. þm. Logi Einarsson kom inn á áðan, að við stöndum frammi fyrir gríðarlega miklum breytingum í framtíðinni. Sú tækniþróun sem við höfum þegar orðið vitni að og spáð er verði mun hafa veruleg áhrif á framtíð vinnu og vinnufyrirkomulag í öllum heiminum. Mín trú er hins vegar sú að við munum að öllum líkindum takast á við þær breytingar með mjög svipuðum hætti og við höfum gert hingað til, þ.e. þær miklu tækniframfarir sem orðið hafa frá tímum iðnbyltingarinnar sem hafa leitt til umtalsvert styttri vinnutíma að jafnaði hjá fólki.

Það er ekki óhugsandi að við sjáum 30 stunda vinnuviku, fjögurra daga vinnuviku eða jafnvel þriggja daga ef út í það er farið þegar fram í sækir. Það er ágætt að hafa í huga að vinnutími hefur að meðaltali helmingast á tveimur öldum og nú spáum við jafnvel enn hraðari breytingu. En ég óttast hana ekki og trúi að t.d. fyrir tilstuðlan samninga á vinnumarkaði og styrkleika stéttarfélaga verði jafnvægis í því gætt þannig að þeirri framleiðniaukningu og þeim ábata sem efnahagslífið hefur af henni verði skipt á milli fjármagns og starfsmanna á svipaðan hátt líkt og hingað til hefur verið raunin, svo að framleiðniaukningin muni leiða til þeirra tveggja þátta sem hafa helst einkennt hana, launahækkana, eða raunverulegrar kaupmáttaraukningar, hjá fólki og styttingar vinnutíma. Hvernig því verður síðan skipt á milli verður tíminn að leiða í ljós.

Spurningin er eftir sem áður áhugaverð og full ástæða til að skoða kosti og galla skilyrðislausrar grunnframfærslu líkt og borgaralaun kveða á um. Persónulega er ég þeirrar skoðunar að skilyrðislaus grunnframfærsla, einhvers konar skilyrðislaus skylda samfélags til framfærslu allra, sé ekki góð hugmynd. Ég held að við séum þá að snúa hugsuninni um samfélag á hvolf. Það er skylda okkar sem borgara í landinu að stuðla að öflugu og góðu samfélagi og sjá til þess að til að mynda velferðarkerfi okkar og öryggisnet gagnist þeim sem þurfa á því að halda og að það sé öflugt og skilvirkt fyrir þá. En það gefur augaleið að við borgum á endanum reikninginn af því velferðarsamfélagi og það er ekki sérstaklega sniðugt að ætla því að skaffa okkur öllum einhver gæði. Einhver okkar þurfa jú að vinna fyrir þeim gæðum, ef þannig mætti að orði komast.

Að því sögðu styðjum við í Viðreisn að slík skoðun fari fram. Þetta er mjög áhugaverð umræða og gott veganesti inn í þá þróun sem við væntum í framtíðinni. Mér hugnast betur tillaga minni hlutans um að þetta sé sett í sjálfstæða skoðun, frekar en að því sé vísað til framtíðarnefndar, einfaldlega af því að ég tel að umræða sem þessi sé vel afmörkuð, spurningarnar sem eru settar fram, þau álitaefni sem eru uppi eru vel afmörkuð og krefjast aðkomu fleiri aðila, t.d. aðila vinnumarkaðarins, að slíkri vinnu. Það hentar því kannski ekki sérstaklega vel inn í mjög víðfeðma og óskilgreinda vinnu framtíðarnefndarinnar þegar ljóst er að viðfangsefnið hér er skýrt og einfalt. Þess vegna held ég að skynsamlegra væri að samþykkja tillögu minni hlutans um að málinu verði vísað til félags- og jafnréttismálaráðherra í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra og þeim yrði einfaldlega falið að skipa um þetta starfshóp.