148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

skilyrðislaus grunnframfærsla.

9. mál
[11:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ef hægt er að segja eitthvað um þetta þá er hægt að fullyrða að framtíðin verður ekki eins og samtíminn, alveg eins samtíminn er ekki eins og fortíðin. Það eru þó nokkur mál sem hafa komið upp í þinginu sem varða framtíðina. Nú vorum við að samþykkja um daginn stafrænar smiðjur. Fyrir liggur þingsályktunartillaga um að skoða hvaða áhrif kjötrækt hefur á framtíðarhagkerfið. Og svo eru það kerfin yfirleitt, eins og hv. þm. Logi Einarsson talaði um. Auðvitað snýst þetta um að við þurfum að skoða öll kerfin hjá okkur. Þingsályktunartillagan snýst líka um að skoða skattkerfið, tvímælalaust. Það er óhjákvæmilegt.

Það er eitt sem við þurfum að átta okkur á í heildarsamhenginu sem við komum aðeins að í fyrri umr. Það er líftími starfa. Það hefur alltaf verið sagt: Jú, það hefur komið ný tækni sem kom í staðinn fyrir gömul störf en það komu bara ný störf í staðinn. Já, það er alveg rétt, en líftími þeirra starfa var einfaldlega styttri en eldri starfanna af því að ný tækni til að leysa þau nýju störf af hólmi kemur hraðar og hraðar, í veldisvexti. Það endar þannig að sá hugbúnaður og tækni sem við getum búið til leysir ný störf af hraðar en við getum menntað fólk. Hvar erum við komin þá?

Við þurfum að skilja betur á næstu árum hvaða hlutverk vélar og hugbúnaður hafa og hvaða verk þau geta unnið og hvert sé þá hlutverk manna í því hagkerfi sem tryggir okkur lífsviðurværi á þessari jörð. Það er í raun það sem það snýst um, að við getum haft í okkur og á og þak yfir höfuðið. Það er að grunni til allt sem við þurfum og það er það sem skilyrðislaus grunnframfærsla snýst að mestu leyti um.

En þetta er ekkert ósamrýmanlegt nútímanum. Við ræðum hér á þingi mjög mikið um kerfi án skerðinga. Við erum að tala um hvernig við ætlum ekki að skerða örorku eða lífeyri vegna tekna maka og ýmislegs svoleiðis, vegna vinnu og því um líkt. Það er ekkert önnur umræða en um skilyrðislausa grunnframfærslu, framfærslu án einhvers konar skerðinga hingað og þangað. Þetta er í raun miklu meira nútímamál en við gerum okkur grein fyrir. Það hefur verið komið inn á það í endurskoðun á skattkerfinu að það væri sniðug hugmynd að hafa útgreiðanlegan persónuafslátt. Þetta var stefna nokkurra flokka fyrir þessar þingkosningar. Útgreiddur persónuafsláttur er ekkert annað en skilyrðislaus grunnframfærsla. Þetta er ekki fjarlægara okkur en þetta.

Mér finnst tillaga meiri hlutans, um að vísa þessu til ríkisstjórnar og framtíðarnefndar, alveg ágæt. En mér finnst hún líka pínulítið skrýtin. Í fyrsta lagi er þetta þingsályktunartillaga sem við myndum samþykkja og setja til ríkisstjórnarinnar. Hins vegar er þetta frávísun til ríkisstjórnarinnar. Ég átta mig ekki alveg. Allt í lagi, það er kannski einhver tæknilegur munur þarna á. En þegar allt kemur til alls mun framtíðarnefndin þurfa nákvæmlega þær upplýsingar sem þingsályktunartillagan krefst. Þegar allt kemur til alls þurfum við hvort eð er að ná þeim markmiðum sem lagt er til í þingsályktunartillögunni og ætti þannig séð að fara til ríkisstjórnarinnar, bara með samþykki þingsins í staðinn fyrir frávísun til ríkisstjórnarinnar og í einhverja framtíðarnefnd — já, ef þið skiljið hvað angrar mig í þessu.

Hvað varðar skattkerfisbreytingarnar og auðsskiptinguna sem komið var inn á áðan þá held ég að það komi til með að skipta rosalega miklu máli í framtíðinni hvaða hagsmunaaðilar verða hér á þingi til þess einmitt að ákveða hvernig skattkerfisbreytingarnar í framtíðinni koma til með að verða. Munum við leggja meiri áherslu á skattkerfisbreytingar í áttina að þessum framleiðslutækjum eða ekki? Þar held ég að ákveðnir hagsmunaaðilar komi til með að hvetja okkur í eina átt fremur en aðra, eftir því hverjir þeir eru.