148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

barnalög.

238. mál
[11:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2006, með síðari breytingum þar sem er fjallað um stefnanda faðernismáls. Það er frá meiri hluta velferðarnefndar. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir frá Barnaheillum, Barnaverndarstofu, Félagi um foreldrajafnrétti, Jafnréttisstofu, Mannréttindaskrifstofa Íslands og umboðsmanni barna.

Með frumvarpinu er lagt til að maður sem telur sig föður barns geti óhindrað höfðað faðernismál því til staðfestingar nema þegar um er að ræða barn tveggja kvenna sem getið er með tæknifrjóvgun. Er frumvarpinu þannig ætlað að tryggja enn betur rétt barns til að þekkja foreldra sína samkvæmt 1. gr. barnalaga, samanber einnig 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem lögfestur var árið 2013. Í 8. gr. samningsins er kveðið á um að aðildarríki skuldbindi sig til að virða rétt barnsins til að viðhalda því sem auðkennir það sem einstakling, þar með talið ríkisfangi sínu, nafni og fjölskyldutengslum. Í samningnum segir enn fremur að tryggja skuli að börn verði ekki aðskilin frá foreldrum sínum nema ef velferð þeirra verði ekki tryggð með öðru móti og að það barn sem ekki elst upp hjá báðum foreldrum sínum eigi rétt á að umgangast þá báða reglulega nema það sé andstætt hagsmunum þess.

Meiri hlutinn áréttar að það er meginregla íslensks barnaréttar að ákvarðanir um hagi barna séu teknar með tilliti til þess sem er barninu fyrir bestu og að barn eigi rétt á að tjá sig í samræmi við aldur og þroska. Þær meginreglur sem settar eru fram í barnasáttmálanum eiga ávallt við í málum sem varða börn og eru lögfestar hér á landi. Það er því ljóst að þær eiga einnig við í faðernismálum og dómstólarnir myndu vísa tilhæfulausum málum frá dómi. Meginreglurnar tryggja einnig að samræmi verður við framkvæmd annars staðar á Norðurlöndunum, enda hafa þau einnig fullgilt barnasáttmálann.

Nefndin ræddi nokkuð um stöðu barna sem getin eru með gjafasæði. Skýrt er kveðið á um það í 4. mgr. 6. gr. barnalaga að maður sem gefur sæði í þeim tilgangi að það verði notað við tæknifrjóvgun á annarri konu en eiginkonu hans eða sambúðarkonu verður ekki dæmdur faðir barns sem getið er með sæði hans. Í frumvarpinu er að finna vísun til þess að faðernismál verði ekki höfðað ef barn á tvær mæður eftir tæknifrjóvgun, samanber 2. mgr. 6. gr., en ekki vísað til annarra aðstæðna þar sem gjafasæði hefur verið notað.

Meiri hlutinn áréttar að 4. mgr. 6. gr. gildir eftir sem áður og að maður geti ekki höfðað faðernismál hafi hann gefið sæði sitt til tæknifrjóvgunar konu sem hann er ekki í sambúð með eða giftur. Margir umsagnaraðilar bentu á að þarna virtist vera réttaróvissa til staðar og mismunun eftir fjölskyldugerð. Nauðsynlegt er að fjölskyldur þurfi ekki að búa við þá óvissu og óöryggi sem fylgir því að geta ávallt átt von á því að sæðisgjafinn geri tilkall til barnsins. Meiri hlutinn áréttar að slík réttaróvissa getur aldrei verið í samræmi við hagsmuni viðkomandi barna og að brýnt er að lögin séu skýr um þetta efni. Leggur meiri hlutinn því til breytingu þessu til áréttingar og til að taka af allan vafa um það atriði.

Þessa breytingartillögu má finna í sérstöku breytingartillöguskjali sem fólk getur kynnt sér.

Ég vildi einnig geta þess í málinu að þetta mun svara því sem kom fram í dómi Hæstaréttar nr. 419/2000, en í þágildandi barnalögum nr. 20/1992 var málsaðild að faðernismáli takmörkuð við barnið sjálft eða móður þess samkvæmt þeim dómi. Dómurum þótti sú takmörkun brjóta gegn 70. gr. stjórnarskrárinnar, samanber 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þar sem í 70. gr. fælist sjálfstæð regla um að menn skyldu almennt eiga rétt á að bera mál sín undir dómstóla og allar takmarkanir á þeirri meginreglu yrði að skýra með hliðsjón af því.

Með hliðsjón af jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar um bann við mismunun taldi Hæstiréttur þágildandi ákvæði barnalaga ekki byggt á málefnalegum sjónarmiðum og vísaði til hagsmuna þjóðfélagsins í heild og ekki síst hagsmuna barns af því að faðerni þess sé réttilega leitt í ljós og ákvarðað. Þá vil ég benda á að við höfum lögfest barnasáttmálann síðan þetta var.

Undir meirihlutaálitið skrifa hv. þingmenn Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, sá sem hér stendur, Vilhjálmur Árnason, Guðjón S. Brjánsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir og Karl Gauti Hjaltason.