148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

barnalög.

238. mál
[11:43]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti sem ég stend að ásamt hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni í velferðarnefnd. Það er bitamunur en ekki fjár á afstöðu okkar í minni hlutanum og meiri hlutanum. Við styðjum meginmarkmið málsins en viljum hins vegar stíga aðeins varlegar til jarðar þar sem við umfjöllun nefndarinnar kom fram að þar sem um væri að ræða veigamiklar breytingar á ákvæðum barnalaga sem vörðuðu mikilvæga hagsmuni barna væri brýnt að vanda til alls undirbúnings og byggja á víðtæku samráði við fag- og hagsmunaaðila og á mati á áhrifum slíkra breytinga.

Í ljósi þess leggjum við til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu frekar en að hljóta fullnaðarafgreiðslu á þingi að þessu sinni.