148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

barnalög.

238. mál
[11:48]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langar til að fara nokkrum orðum um þetta góða mál. Ég er áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd og lýsti mig samþykka áliti meiri hlutans. Ég sat nefndarfundi þegar málið var rætt og gestir komu fyrir nefndina og var mjög ánægjulegt að sjá hversu samhljóma þau voru í málflutningi sínum.

Eins og fram kom í máli framsögumanns, hv. þm. Vilhjálms Árnasonar, var m.a. nokkuð rætt um stöðu barna sem getin eru með gjafasæði. Fram kom í umsögnum nokkurra aðila, t.d. Barnaverndarstofu, að þeim þótti óþarfi að opna málið of mikið og höfðu áhyggjur af hagsmunum fjölskyldna þar sem einstaklingar höfðu gefið sæði, að þeir gætu með slíkri opnun mögulega höfðað faðernismál. Eðlilega þótti það ótækt og ekki í samræmi við það sem ætlunin var eða orðanna hljóðan. Vel er farið yfir það í nefndarálitinu hvernig brugðist er við því og er það mjög gott skref.

Ég er sammála því sem komið hefur fram að ef frumvarpið næst samþykkt á þingi er um ákveðið tímamótamál að ræða og réttlæti fyrir börn þessa lands. Mig langar, án þess að orðlengja það frekar, að segja eitt í viðbót. Við erum klárlega fyrst og fremst að ræða rétt barna en það er líka í lagi og einfaldlega jákvætt og frábært að það skuli fara saman að einnig er um rétt karlmanna að ræða. Við þekkjum þetta sem erum foreldrar. Að vera komin með þann skilyrðislausa rétt núna, standi efni og ástæður til, að höfða slík mál er að sjálfsögðu fyrst og fremst í þágu barna en ég fagna því að hér skuli fara saman réttarbót fyrir börn og karlmenn, að til verði þessi greiða leið verði frumvarpið að lögum. Ég vildi koma því á framfæri vegna þess að þrátt fyrir að við vitum öll hvar stóra markmiðið liggur er þetta einnig gríðarlega mikilvægt og ég fagna því.