148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

meðferð sakamála.

628. mál
[11:51]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Örstutt um þetta mál sem flutt er af hv. allsherjar- og menntamálnefnd. Það er flutt að frumkvæði undirritaðs og leiðréttir mistök sem voru gerð við lagasetningu fyrir eiginlega nákvæmlega tveimur árum síðan. Ég get ekki hrósað mér af því að hafa áttað mig á því einn og óstuddur, heldur var það árvökull laganemi sem var að lesa til prófs og sá að þarna voru villur í lögunum sem þyrfti að leiðrétta. Á hann þakkir skildar fyrir það.

Þetta minnir okkur enn einu sinni á hversu mikilvægt er að vandað sé til verka þegar lög eru sett, að bæði við á þinginu og í ráðuneytunum vöndum mjög til verka. Auðvitað geta mistök alltaf orðið og ekki hægt að útiloka þau með öllu, en málsmeðferð sem byggir á hraða og tímaskorti er aldrei til bóta. Mistök geta orðið dýrkeypt. Í þessu tilfelli tekst að leiðrétta þau áður en þau geta hugsanlega valdið réttarspjöllum og því ber að fagna, en við skulum reyna að vanda okkur enn betur í framtíðinni.