148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

kjararáð.

630. mál
[11:53]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu við frumvarp til laga um brottfall laga um kjararáð. Breytingartillagan er mjög einföld. Hún bætir bara við það marga góða sem frumvarpið gerir, þ.e. að laun þingmanna og ráðherra fylgi launaþróun. Í þetta skipti er ég aðeins að tala um laun þingmanna og ráðherra, ég er margoft búinn að leggja fram breytingartillögur og koma með tillögur um vegferð máls í nefnd þegar lögunum um kjararáð var breytt fyrir ári síðan um að þetta skyldi gilda um alla sem falla undir kjararáð. Nú ætla ég að gera síðustu tilraun að breytingartillögu um að laun þingmanna og ráðherra, aðeins þeirra, skuli fylgja launaþróun frá 2013, 70% launafólks á almennum vinnumarkaði. Það þarf að miða við þann tíma. Ef á að vera sanngjarn hvað varðar að raska ekki kjarasamningum þorra launafólks, fyrirgefið þið, skapa ekki einu sinni hættu á að raska kjarasamningum þorra launafólks, þá þarf að miða við þann tíma. Þetta er síðasta tilraun til að við fylgjum almennri launaþróun þorra launafólks, en eins og lögin um kjararáð á þeim tíma voru, þegar kjararáð hækkaði á kjördag 2016 laun þingmanna, ráðherra og annarra, þá var það langt umfram þá þróun.

Það er dómsmál í gangi núna. Kæra mín og VR á ákvörðun kjararáðs sem var tekin á kjördag 2016 var tekin fyrir, það dómsmál er hafið. Það byrjaði náttúrlega á því að núna rétt fyrir helgi óskaði ríkið eftir að því máli yrði vísað frá. Fólk getur fylgst með því áfram. Það verður kveðinn upp úrskurður um hvort samþykkt verði að vísa málinu frá eða hvort því skuli haldið áfram. Það verður einhvern tímann núna í júní, júlí, um mánaðamótin.

Að öðru leyti er margt gott við frumvarpið, við förum bara yfir það. Það fellir úr gildi lög um kjararáð sem að okkar mati, sem höfum kært ákvörðun þess, hefur verið að brjóta lög við ákvarðanir sínar. Það er gott. En hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, samstarfsmaður minn, Pírati, hefur bent á að þetta gæti þýtt samt sem áður það, þ.e. ef kjararáð verður lagt niður og launaþróun þingmanna og ráðherra og annarra sem heyra undir kjararáð muni fylgja miðgildi launaþróunar opinberra starfsmanna, sem er gott líka, þá gæti það samt sem áður þýtt að ákvörðunin á endanum verði tekin í fjárlögum. Þá gæti orðið freistnivandi hjá löggjafanum að hækka launin örlítið. Við skulum fylgjast sérstaklega vel með því. Og þegar þetta verður tekið aftur upp í haust — því að nú er þetta gert með hraði, að fella kjararáð niður — einhvers konar áframhaldandi ákvarðanir um hvernig þessum málum skuli háttað skulum við fylgjast með því að loku verði skotið fyrir þetta, því að þá verða lögð fram fjárlög. Og við skulum ekki skilja við málið þannig að þingmenn gætu notað þann freistnivanda í að hækka launin sín sjálfir. Það væri mjög slæm þróun.

Að öðru leyti er ég tiltölulega sáttur og bendi fólki aftur á að fylgjast með dómsmálinu þar sem við kærðum það að fella úr gildi þá ákvörðun kjararáðs að hækka laun þingmanna og ráðherra á kjördag 2016. Eins og ég segi, það verður einhvern tíma í lok mánaðar að öllum líkindum.