148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

kjararáð.

630. mál
[11:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Miðað við þær forsendur sem eru gefnar í greinargerð frumvarpsins um fyrirkomulagið sem er lagt til í kjölfarið á þessu lítur það þannig út að krónutölurnar sem þingmenn og aðrir verða með í laun komi til með að standa í lögum. Það þýðir að þingmenn þurfa að greiða atkvæði um það þegar sú tala á að hækka. Óháð því hvaða rökstuðningur liggur þar á bak við þýðir það í verki að þingmenn eru að ákvarða laun sín.

Það gerir ábyrgðina alveg skýra, hvar hún liggur, sem er ekkert slæmt út af fyrir sig. En það verður í raun mjög áhugavert og að einhverju leyti afturför, myndi ég telja, til fyrri tíma, sem enduðu í mjög slæmum ákvörðunum um eigin laun, kaup og kjör hjá þingmönnum, t.d. með þessu alræmda eftirlaunafrumvarpi sem var samþykkt árið 2003 eða hvað það var. Þó að við hugsum okkur gott til glóðarinnar, að losna við þetta vonda kjararáð, sem hefur verið hér undanfarið og vísað hefur verið í í fjölmiðlum og annars staðar — þær ákvarðanir sem hafa verið teknar af því undanfarið hafa ekki verið til þess að hjálpa til við þær aðstæður meðal launafólks sem eru nú til staðar — þýðir það ekki endilega að það sem tekur við sé betra, bara það að breyta er ekkert endilega gott.

Kjararáðshugmyndin á enn alveg rétt á sér, en ég held að við ættum að taka okkur virkilega á og sameinast um að ráðið starfi eftir lögum. Það stendur sérstaklega í lögum að kjararáð eigi að fara eftir almennri launaþróun. Í tillögunni sem er lögð fram hér er að fara eigi eftir meðallaunum opinberra starfsmanna. Það er ekkert sem segir að kjararáð geti ekki bara gert það líka. Af hverju þurfum við þá sérstaklega að greiða atkvæði af eða á um þau skilyrði? Af hverju er ekki betra að kjararáði sé beinlínis gert að fara eftir lögum og þegar það gerir það ekki, eins og svo augljóslega var hér árið 2016, um kosningarnar, þar sem tvímælalaust var farið umfram almenna launaþróun, af hverju tekur Alþingi þá ekki á því? Ég skil það ekki.

Mig langar aðeins að benda á hvernig þetta er gert annars staðar. Í Bretlandi er sérstök stofnun sem var sett á laggirnar í kjölfar ýmissa óheppilegra atvika varðandi starfskostnað þingmanna, þar sem kom í ljós að þingmenn voru að draga til sín ýmiss konar kostnað sem var alls ekki réttlætanlegur. Það var sett á laggirnar stofnun sem fylgdist með því hvað þingmenn væru að nota sinn starfskostnað o.s.frv., hvað þeir tiltækju sem kostnað. Sú stofnun tekur líka ákvörðun um launahækkanir þingmanna. Sama stofnunin og hefur eftirlitið með því hvort verið sé að fara eftir ákvörðunum um hver séu kaup og kjör þingmanna. Það er kannski ekki sem heppilegast að hafa þetta nákvæmlega á sama stað, að hafa ákvörðunar- og eftirlitsvald á sama stað, en það er þó nær því að ábyrgðin liggi á einni hendi. Það að taka ákvörðunina, vita um hvað hún snýst og geta haft rétt eftirlit með þeim ákvörðunum án þess að það séu túlkunaratriði á milli, hvort kjararáð sé stjórnvald eða ekki eða eitthvað því um líkt, sem virðist vera rifrildi um á milli löggjafans og kjararáðs sjálfs. Það væri mjög heppilegt ef ekki væri möguleiki á svoleiðis misskilningi varðandi ákvarðanir sem eru teknar um laun og eftirlit með þeim kostnaði sem fylgir.

Jú, það er svo sem fínt að leggja niður kjararáð, alla vega eins og það hefur verið, en það þýðir ekki endilega að við fáum bestu lausnina í framhaldinu. Við þurfum að vera mjög vel vakandi svo að við dettum ekki í sama freistnivanda og við höfum gert á undanförnum áratugum.