148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

kjararáð.

630. mál
[12:02]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um brottfall laga um kjararáð, nr. 130/2016, með síðari breytingum. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur lagt málið fram og fjallað var um það lítillega í 1. umr. Það kemur ekki eiginlegt nefndarálit, en ég tel hins vegar ástæðu til að lýsa yfir stuðningi við málið.

Eins og þingmönnum er kunnugt um skilaði starfshópur forsætisráðherra skýrslu af sér 15. febrúar síðastliðinn þar sem hann lagði fram nokkrar tillögur sem koma fram m.a. í greinargerð með frumvarpinu.

Ég tel að þær áhyggjur sem menn hafa reist vegna framtíðarinnar, þ.e. hvað gerist þegar kjararáð hverfur, séu skiljanlegar en óþarfar. Í ljósi sögunnar eru þær skiljanlegar. Fyrri úrskurðir kjararáðs hafa ítrekað valdið úlfúð í landinu og orðið tilefni til margs lags umræðu, en það er einmitt þess vegna sem krafan hefur verið reist í samfélaginu um að þetta fyrirkomulag verði lagt niður og það er í raun það sem starfshópurinn leggur til.

Starfshópurinn leggur síðan til, þó að hann leggi ekki fram eiginlegt frumvarp, í sjö tölusettum liðum með hvaða hætti hann telji heppilegast að framtíðin verði vörðuð hvað varðar launakjör þessara embættismanna. Við skulum líka átta okkur á því að þó að í eiginlegum skilningi hafi þarna bara fallið undir þeir starfsmenn sem kjararáð hefur úrskurðað um, þá hafa margir aðilar úti í samfélaginu, oftast kjörnir fulltrúar, þ.e. kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum og víðar, notað í rauninni úrskurði kjararáðs sem andlag ákvarðana fyrir þær launasetningar sem hafa verið í sveitarfélögunum. Þetta hefur líka skapað mikla úlfúð innan sveitarfélaganna sem aftur þýðir að það er í rauninni stærri hópur þarna undir en kannski virðist í fyrstu.

Ég held að afar mikilvægt sé að við tökum um þetta þá ákvörðun sem verður sátt um í framtíðinni. Þar tel ég að sé vel um búið í tillögum starfshóps ráðherra og treysti því að frumvarp komi fram í haust sem taki á þessum málum. Í krafti þess trausts legg ég til að málið verði samþykkt.