148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[12:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024. Tillagan sjálf liggur fyrir á þskj. 690 og nefndarálitið ásamt breytingartillögu á þskj. 1124. Þetta álit er frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

Nefndin hefur farið yfir málið, fjallað um það og fengið á sinn fund gesti og farið yfir þær 14 umsagnir sem bárust frá ýmsum aðilum. Ég ætla ekki að orðlengja hér um hlutverk byggðaáætlunar en í fyrirliggjandi tillögu eru byggðamál skilgreind sem öll þau viðfangsefni sem hafa áhrif á lífsgæði og samkeppnishæfni landshluta, svo sem búsetu, atvinnu og nýsköpun. Tillagan er í fjórum köflum eða hlutum og fyrsti hlutinn fjallar um framtíðarsýn og viðfangsefni og er stutt afmörkun. Annar hlutinn er um markmið, áherslur og mælikvarða og er sá hluti þrískiptur. Þriðji hlutinn fjallar um samþættingu við aðrar stefnur og áætlanir og í fjórða hlutanum er síðan aðgerðaáætlun þar sem ýmis verkefni áætlunarinnar eru skilgreind.

Meiri hlutinn leggur ekki til veigamiklar breytingar á áætluninni en það eru örlitlar breytingartillögur við þrjá kaflana en engin þeirra snýr að aðgerðaáætluninni. Meiri hlutinn telur það jákvæða breytingu að fyrirliggjandi tillögur séu við vel flestar aðgerðir í IV. kafla, tilgreint hvernig árangur af verkefninu verði mældur. Þá er tilgreint hver er framkvæmdaraðili aðgerðar og tekin dæmi um samstarfsaðila sem meiri hlutinn telur til bóta og auki skýrleika áætlunarinnar og auðveldi eftirfylgni með henni. Það sama á við um afmörkun hverrar aðgerðar í tíma. Auk þess er tryggð regluleg skýrslugjöf til Alþingis um framgang tillögunnar. Meiri hlutinn vonast til að nefndar breytingar leiði til þess að árangur af framkvæmd byggðaáætlunar verði betri og sýnilegri en áður.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að byggðakorti ESA af Íslandi verði beitt markvisst til að styðja sömu svæði og sérstök áhersla er lögð á að styðja í byggðaáætlun, þ.e. svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.

Nefndinni barst athugasemd um orðalag I. kafla, um framtíðarsýn og viðfangsefni, og leggur til smávægilega orðalagsbreytingu í framhaldi af þeirri ábendingu. Sú breyting er fyrst og fremst til bætts orðalags en inntak og framtíðarsýn breytist ekki. Ég vil bara lesa upp setninguna eins og hún hljóðar í breytingartillögunni:

„Í öllum landshlutum verði blómlegar byggðir og öflugir byggðakjarnar þar sem stuðlað verði að bættum lífskjörum landsmanna með sem jöfnustu aðgengi að grunnþjónustu og atvinnutækifærum óháð efnahag og búsetu.“

Þar fyrir utan eru smávægilegar lagfæringar á orðalagi í I. kafla.

Samkvæmt lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir er gert ráð fyrir miklu samráði við undirbúning áætlunarinnar. Það kom fram á fundum nefndarinnar að samráðið hefði verið víðtækt eins og ætlast er til. Lýstu umsagnaraðilar almennt mikilli ánægju með aukið samráð. Meiri hlutinn telur breytt fyrirkomulag samráðs við gerð áætlunarinnar til fyrirmyndar þótt alltaf megi gera betur. Þannig álítur meiri hlutinn að mikilvægt sé að ríkisstofnanir sem starfa á landsbyggðinni og geta orðið virkir þátttakendur í framkvæmd áætlunar séu með í byggðaáætlunarferlinu. Gæti slíkt samráð til dæmis átt sér stað í gegnum samráðsvettvanginn í landshlutunum og væri það í raun eðlilegra en að það færi í gegnum samráðsvettvang ráðuneytanna. Þá var á fundum nefndarinnar bent á að æskilegt væri að auka samráð og samtal milli Byggðastofnunar, Bændasamtaka Íslands og annarra sem koma að framkvæmd búvörusamninga, m.a. til að auka samræmi milli byggðaaðgerða í búvörusamningum og byggðaáætlunar. Einnig var bent á tækifæri til að tengja Framleiðnisjóð landbúnaðarins betur nýsköpun í strjálbýli.

Þá kom fram á fundum nefndarinnar að öll verkefni sem eru í tillögunni hafa fengið jákvæða umfjöllun í samráðsferlinu, þ.e. verkefnin í aðgerðaáætluninni. Ráðuneytin og aðrir framkvæmdaraðilar væru meðvitaðir um hvert og eitt verkefni sem að þeim snýr og margir af mögulegum samstarfsaðilum. Vilji er meðal framkvæmdar- og samstarfsaðila að fara í verkefnin. Þá hvöttu umsagnaraðilar til þess að tillagan yrði samþykkt sem fyrst þannig að hægt yrði að hefjast handa við einstök verkefni.

Síðan aðeins um samstarfsaðila: Undir hverri aðgerð í tillögunni eru tilgreind dæmi um samstarfsaðila verkefnis og nefndin leggur til í nokkrum tilfellum að samstarfsaðilum sé bætt við til að auka líkur á því að sjónarmið og sérfræðiþekking tiltekinna aðila nýtist við framkvæmd áætlunarinnar. Dæmi um þessa samstarfsaðila eru Öryrkjabandalag Íslands, Samorka, Skógræktin, Umhverfisstofnun og Landgræðslan. Þá ræddi nefndin nokkuð um fjármögnun og að ekki væri alltaf nægjanlega skýrt hvernig fjármögnun einstakra aðgerða byggðaáætlunar væri háttað. Eins og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni er fjármögnun aðgerða þrenns konar: að fullu af fjárheimild byggðaliðar, samfjármögnun af byggðalið og fjárheimildum viðkomandi málaflokks og svo fjármögnun að fullu af fjárheimild viðkomandi málaflokks. Þá eru nokkrar aðgerðir sem ekki er gert ráð fyrir verulegum kostnaði við. Nefndin kallaði eftir viðbótarupplýsingum varðandi fjármögnunina og ljóst er að kostnaður við aðgerðirnar 54 verður umtalsvert meiri en það fjármagn sem kemur af byggðalið. Með því að samþætta byggðaáætlun við aðrar opinberar áætlanir verður hægt að fjármagna aðgerðir, ýmist af fjárheimild viðkomandi málaflokks eingöngu eða með samfjármögnun málaflokksins og byggðaliðar.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að áætlunin verði fullfjármögnuð og að við áframhaldandi þróun nýs verklags verði leitast við að auka gagnsæi í fjármögnun verkefna. Það mun gerast í framhaldi af því að Alþingi hefur samþykkt áætlunina, þá verður lokið við kostnaðarmat og verkáætlun fyrir hverja aðgerð.

Við umfjöllun um byggðaáætlun var nokkuð rætt um tengsl byggðaáætlunar við aðlögun og aðgerðir Íslands í tengslum við loftslagsbreytingar og leggur nefndin til örlitla breytingu til að auka áhersluna á þau tengsl. Meiri hlutinn telur mikilvægt að skuldbindingar Íslands vegna Parísarsamkomulagsins verði hafðar að leiðarljósi við framkvæmd byggðaáætlunar. Þá sé mikilvægt að viðfangsefni áætlunarinnar sé ekki einungis aðlögun vegna loftslagsbreytinga heldur líka nauðsynlegar mótvægisaðgerðir til að vinna gegn loftslagsbreytingum. Þá leggur meiri hlutinn sérstaka áherslu á að mismunandi áform og áætlanir tengdar loftslagsmálum verði samþættar í vinnu samkvæmt byggðaáætlun, svo sem landshlutaáætlanir í skógrækt, áætlanir bænda um kolefnisjöfnun einstakra búgreina, þróun almenningssamgangna og notkun vistvænna orkugjafa.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til eitt nýtt markmið í markmiðshluta áætlunarinnar til að auka áherslu á skógrækt og þar er lagt til að skógrækt verði efld sem atvinnugrein með áherslu á landshlutaáætlanir, skógrækt og þróun nýtingar skógarafurða.

Að lokum áréttar meiri hlutinn að í umsögnum komu fram ýmsar gagnlegar ábendingar sem geta nýst við framkvæmd byggðaáætlunar, m.a. varðandi heilbrigðis-, mennta- og orkumál. Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir álitið rita Bergþór Ólason formaður, Líneik Anna Sævarsdóttir framsögumaður, Ari Trausti Guðmundsson, Hanna Katrín Friðriksson, Helga Vala Helgadóttir, Jón Gunnarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Vilhjálmur Árnason sem var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis. (Forseti hringir.) Sara Elísa Þórðardóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.