148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[12:29]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Við erum hér að ræða stefnumótandi byggðaáætlun 2018–2024. Eins og ég hef komið inn á áður er byggðastefna algjör grundvallarstefna í starfi ríkisins og því mikilvægt að undirbúningur hennar sé vandaður og vel fylgt eftir. Ég hefði reyndar viljað sjá aðeins fleiri breytingar, t.d. hvað varðar aukinn stuðning við nýsköpun yfir höfuð og kannski skýrari leiðir varðandi flugið. En það eru samt sem áður mörg góð markmið þarna og mörg góð verkefni. Ég hef enn smááhyggjur af því að í þessari áætlun, eins og hefur viljað brenna við með fyrri byggðaáætlanir, sé meira um falleg orð en minna verði úr framkvæmdinni og eftirfylgninni. Vonandi mun koma í ljós að ég hafi hreinlega rangt fyrir mér.

Hvað framkvæmdina varðar er að mínu mati æskilegt að innvikla landshlutasamtök sveitarfélaga og stoðkerfi atvinnulífsins í landshlutunum enn betur í undirbúningi við gerð og framkvæmd byggðaáætlunar. Það er þannig mikilvægt að byggðaáætlun taki mið af sóknaráætlunum landshluta og öðrum stefnum þeirra, til að mynda svæðisáætlunum og DMP-áætlunum. Ég tel að aukin samvinna við landshlutana myndi auðvelda slíka samræmingu. Þannig mætti einnig skoða hvort ekki væri bara hreinlega eðlilegt að setja aukið vald og aukinn stuðning til landshlutanna við framkvæmd byggðaáætlunar.

Þá langaði mig sömuleiðis að velta því upp hvort e.t.v. ætti byggðaáætlun að fjalla meira um uppbyggingu innviða og þjónustu um landið, þ.e. stóru myndina, á meðan smærri verkefni væru útfærð í hverjum landshluta. Ég held að stærsta byggðamálið sé í raun að tryggja aðgengi að grunninnviðum og þjónustu, svo sem samgöngum, raforku o.s.frv., og ætti byggðaáætlun e.t.v. í meira mæli að horfa til þessara þátta og síðan geta landshlutarnir og íbúarnir úti um landið unnið að smærri verkefnunum.

Herra forseti. Ein stærsta byggðaákvörðun sem hefur verið tekin á Íslandi var ákvörðun um stofnun Háskóla Íslands í Reykjavík. Sömuleiðis vil ég meina að það hafi verið stór ákvörðun að setja á fót Háskólann á Akureyri sem á undanförnum árum hefur sannarlega sannað sig. Mikilvægi þess að styðja við uppbyggingu Háskólans á Akureyri og raunar háskólastarfs á landsbyggðinni allri og öllum svæðum hefur sjaldan verið meira. Háskólinn á Akureyri er til að mynda í þeirri stöðu að umsóknum hefur fjölgað um 30% en því miður vill brenna við að við erum að koma á fót flottum verkefnum víðs vegar um landið, yfirleitt með það í huga að styðja við byggðirnar, en svo setjum við ekki fjármagn í þau sem verður til þess að þessi verkefni ná ekki að vaxa eins og þau gætu.

Ég vona sannarlega að það verði ekki raunin áfram með Háskólann á Akureyri og að honum verði gert kleift að vaxa áfram, bæði þegar kemur að fjölda nemenda og fjölda námsgreina.

Herra forseti. Að lokum langaði mig að koma inn á að á síðustu dögum hafa verið að berast svör við fyrirspurn minni um úthlutun styrkja frá ráðuneytunum. Enn eiga nokkur ráðuneyti eftir að svara en þau svör sem hafa borist staðfesta því miður þá tilfinningu mína að hlutfall styrkja sem fara út fyrir höfuðborgarsvæðið sé óskaplega og jafnvel óeðlilega lágt. Þessar tölur staðfesta mikilvægi þess að byggðagleraugun séu alltaf á nefinu ásamt kynjagleraugunum og að allar ákvarðanir séu skoðaðar með tilliti til byggðaáhrifa. Ég tel því að setningin um að í allri stefnumörkun og áætlanagerð hins opinbera verði áhrif á þróun einstakra byggða og búsetu skoðuð og metin sé sérstaklega mikilvæg og ég vona að hæstv. ráðherra fylgi því vel eftir í allri stjórnsýslu ríkisins þannig að þetta verði raunverulega gert og að við sjáum raunverulegar breytingar gagnvart viðhorfi til landsbyggðarinnar.