148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[12:38]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér stefnumótandi byggðaáætlun til næstu sex ára. Ég vil fagna henni sérstaklega. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað, Albertínu Elíasdóttur og Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur. Það er ánægjulegt og gott að við getum öll verið sammála um að skrifa undir svona plagg því að þetta á við hvort sem við erum að tala um Reykjavík, Þórshöfn, Höfn í Hornafirði eða Súgandafjörð. Allt eru það staðir sem við viljum að geti búið blómlegu búi. Það skiptir máli og okkur kemur öllum við hvernig við skipuleggjum og viljum sjá þetta 103 þús. ferkílómetra svæði sem við búum hér á.

En í framangreindri tillögu um stefnumótandi byggðaáætlun segir, með leyfi forseta:

„Byggðamál verði samþætt við aðra málaflokka eftir því sem við á. Þá verði áhrif á þróun einstakra byggða og búsetu skoðuð og metin í allri stefnumörkun og áætlanagerð hins opinbera.

Helstu viðfangsefni byggðaáætlunar verði að takast á við fækkun íbúa á einstökum svæðum, einhæft atvinnulíf, tæknibreytingar og þróun og aðlögun er varðar einstakar atvinnugreinar, aðlögun vegna áhrifa loftslagsbreytinga, að tryggja greiðar samgöngur og aðgengi að þjónustu og bregðast við harðnandi alþjóðlegri samkeppni um fólk og fyrirtæki. Lögð verði sérstök áhersla á svæði sem standa höllum fæti í þessu samhengi.“

Það er jákvætt að stuðla eigi að markvissum aðgerðum í byggðamálum og betri árangri í þeim efnum. Frumskilyrðið er auðvitað að fjármögnun sé tryggð svo að hægt sé að treysta því að langtímaáætlanir standist. Þetta skiptir miklu máli. Við getum deilt um áherslur og forgangsröðun verkefna en fjármögnun þeirra er frumskilyrði.

Sú lagalega umgjörð sem nú er til staðar ætti að tryggja vandaðri vinnubrögð og meiri samhæfingu milli opinberra áætlana. Í stjórnarsáttmálanum er fjallað sérstaklega um byggðamál en þar segir, með leyfi forseta:

„Mikil verðmæti felast í því að landið allt sé í blómlegri byggð. Landsmenn eiga að hafa jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum um land allt.“

Það er stórt verkefni að vinna að því að jafna aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum um allt land. Lykilatriði í því er að nýta þá tækni sem nú er til staðar eða áætlað er að innleiða til að bæta lífskjör þeirra sem búa á landsbyggðinni. Ljósleiðaravæðingin gefur tækifæri til að innleiða t.d. fjarheilbrigðisþjónustu og við þurfum ekkert endilega að finna upp hjólið í því sambandi. Frændur okkar Danir bjóða upp á slíka þjónustu og líka Norðmenn og við þurfum bara að tileinka okkur það sem hefur verið vel gert á því svæði.

Frændur okkar Norðmenn hafa farið í aðgerðir til að laða að ungt fólk til að flytjast á ákveðin svæði sem glíma við viðvarandi fólksfækkun. Í stjórnarsáttmálanum er minnst á að skoðaðir verði kostir til að nýta námslánakerfið til hvata fyrir fólk sem vill setjast að úti á landi. Einnig er áætlun að ráðuneyti og stofnanir fái þau verkefni að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar.

Það er líka slæmt þegar við fréttum af því núna fyrir nokkrum vikum eða dögum að það eru uppsagnir í Landsbankanum sem er með yfirlýsta stefnu um samfélagsábyrgð. Banki sem fullyrðir að hann sé banki allra landsmanna og er í eigu ríkisins. Þetta er mjög undarlegt og í hrópandi ósamræmi við samfélagsstefnu Landsbankans, að fækka starfsmönnum í útibúum sínum úti um landið. Þeir bera fyrir sig tækniframfarir en bankastarfsemin í heild er ekkert að dragast saman, þeim væri alveg í lófa lagið að flytja verkefni og störf sem er hægt að vinna án staðsetningar um allt land. Tækninni fleygir jú jafn vel um allt land.

Ég vil líka nefna skosku leiðina sem undirstrikar það og stuðlar að því að flugið verði að almenningssamgöngum.

Um leið og ég fagna framkominni stefnumótun um byggðaáætlun langar mig að hvetja stjórnvöld til að hafa hana til hliðsjónar við komandi fjárhagsáætlanir og fjárlög. Ef við gerum það ekki er betur heima setið en af stað farið.