148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[12:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér byggðaáætlun og eðlilegt að margt komi upp í hugann í þeirri umræðu. Þetta er byggðaáætlun til sjö ára. Mér finnst hún vera metnaðarfull. Ég hef áður séð byggðaáætlanir sem eru líka metnaðarfullar en hafa ekki gengið eftir sem skyldi, því miður. En mér finnst undirbúningur að þessari byggðaáætlun vera góður og margir hafa komið þar að. Þetta plagg sýnir að menn gera sér grein fyrir því hvar skórinn kreppir og hvað þarf að gera til þess að jafnræði verði í byggð landsins og íbúar geti treyst því að alls staðar sé sambærileg grunnþjónusta, heilbrigðiskerfi, menntunarmöguleikar og allt það sem nútímafjölskylda gerir kröfu til í sínu samfélagi. Mér finnst mikilvægt að góð eftirfylgni sé með byggðaáætlun, að tryggt sé að allt sé árangursmetið, að markmið séu skýr og skýrt hverjir beri ábyrgð; að tikkað sé í boxin og fylgt vel eftir gagnvart öllum ráðuneytum og öllum þeim sem eiga að vera í samstarfi um að framfylgja þessari byggðaáætlun.

Ég er mjög ánægð með það sem kemur fram um að stuðla að jafnræði í búsetu og að lífskjör geti verið sambærileg vítt og breitt um landið og tækifærin fyrir íbúana til að byggja upp sitt samfélag. Við vitum að það vantar mikið upp á að það sé í lagi í dag. Ég hef miklar áhyggjur af landsvæðum þar sem íbúum heldur áfram að fækka. Það sést í þessari þingsályktunartillögu að þar skera Vestfirðir sig úr, þar hefur breyting frá árinu 2010 og til 2017 í íbúaþróun verið neikvæð upp á 5,5%. Sama má segja um Norðurland vestra, þar er fækkun á þessum árum um 4,5% og á Austurlandi er fækkun upp á 0,6%. Aðrir landshlutar eru betur staddir þó að gjarnan mætti vera meiri fjölgun eins og á Norðurlandi eystra, en víða eru hlutirnir bara í góðu lagi. Svæði eins og Suðurnes er greinilega að taka miklum framförum varðandi atvinnu og íbúaþróun. Þar er ekki lengur það atvinnuleysi sem það svæði glímdi við.

Efnislega um þetta mál vil ég segja að það eru auðvitað áfram þessi lykilþættir sem verða að vera til staðar svo að fjölskyldur vilji byggja framtíð sína og afkomu á landsbyggðinni. Það er grunnurinn að hafa aðgengi að góðri grunnþjónustu eins og ég nefndi hér áðan, að atvinnutækifæri séu fjölbreytt og samgöngur góðar, að heilbrigðiskerfi og menntamál séu í lagi. Þess vegna finnst mér gott að aukin áhersla er til dæmis lögð á fjarnám. Lögð er aukin áhersla á að gera flugið að almenningssamgöngum. Stefnt er að því að taka upp hina svokölluðu skosku leið á næsta ári. Það er verið að ljúka ljósleiðaravæðingu um landið árið 2020 og þá verða 99% landsmanna með aðgengi að háhraðatengingu. Það er auðvitað grundvöllur að því að hægt sé að byggja upp ýmsa atvinnustarfsemi vítt og breitt um landið. Jöfnun orkuverðs er stór þáttur í því að það sé sambærilegt að búa á höfuðborgarsvæðinu og á þeim stöðum þar sem eru köld svæði og orkukostnaður er mestur. Þar verðum við að taka okkur á og ljúka því að jafna orkukostnað.

Eins og fram hefur komið þá eru byggðarlög sem eru hreinlega ekki með eðlilegar vegasamgöngur á sínu svæði. Hægt er að nefna sunnanverða Vestfirði og víða til sveita, uppsveitir Borgarfjarðar og fleiri staði; tengingar, tengivegi og annað. Þetta eru allt byggðamál og það skiptir gríðarlega miklu máli að því sé fylgt vel eftir að ljúka þessum framkvæmdum. Þetta eru allt byggðamál sem falla undir byggðaáætlun. Það er því mikilvægt að þeim atriðum sem eru nefnd hér, 54 atriðum, sem á að framkvæma, fylgi fjármagn. Það er búið að tryggja 3,5 milljarða, en það vantar að tryggja það í fjárlögum hvers árs að aðrir þættir séu fjármagnaðir sem skyldi. Oft skarast þetta þá við aðra málaflokka.

Ég hef miklar væntingar til þess að þessi byggðaáætlun geri það að verkum að tækifæri verði á landsbyggðinni og að byggðaþróunin snúist við með jákvæðum formerkjum.