148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[13:09]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024. Mig langar að hlaupa aðeins yfir þetta, taka nokkra punkta fyrir. Það er afar ánægjulegt að þingsályktunartillagan komi fram með þessum 52 áherslupunktum. Mig langar rétt að koma að nokkrum þeirra og kannski bæta líka í púkkið þar sem mér finnst vanta aðeins upp á.

Það er sérlega ánægjulegt hversu vel hefur gengið með verkefnið Ísland ljóstengt, sem er lykilverkefni í byggðaþróun á Íslandi. Við sjáum fram á að við lok verkefnisins árið 2020 eigi 99,9% lögheimila og fyrirtækja með heilsársbúsetu eða starfsemi í dreifbýli kost á minnst 100 MB þráðbundinni nettengingu. Þetta hefur verið að sanna sig vel og hratt á undanförnum misserum og árum. Verkið gengur vel og er þetta sjálfsagt með betri byggðaaðgerðum sem farið hefur verið í á undanförnum árum.

Ég ætla aðeins að nefna fjarheilbrigðisþjónustuna, hún er líka í mikilli þróun. Ég myndi gjarnan vilja sjá að hún þróaðist, t.d. eins og á Sjúkrahúsinu á Akureyri og á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, þannig að hægt væri að þjónusta viðeigandi landsvæði og stærri landsvæði í gegnum fjarheilbrigðisþjónustuna. Það er mikilvægt mál.

Talandi um heilbrigðisþjónustuna vil ég nefna punkt sem mér finnst verulega vanta í áætluninni að komi fram með skýrum hætti en það er aðgengi landsmanna, sem fjær búa höfuðborgarsvæðinu, að Landspítala Íslands, okkar öflugasta sjúkrahúsi og þá í gegnum sjúkraflugið. Það er lítið talað um þetta en það er lykilatriði í heilbrigðisþjónustu okkar að gott aðgengi sé að aðalsjúkrahúsinu í Reykjavík. Þar gegnir Reykjavíkurflugvöllur lykilhlutverki í því að fólk komist fljótt og vel á öflugasta sjúkrahúsið. Ég nefni þar að auki almennt aðgengi að stjórnkerfinu, menntakerfi, heilbrigðisþjónustu, atvinnulífi og almenningssamgöngum á Íslandi, sem Reykjavíkurflugvöllur er. Meira hefði mátt koma fram í þessari stefnumótun í byggðaáætlun um það sem tengist því.

Því er þannig háttað að um 60 þús. manns sem búa í dreifbýli landsins fjærst Reykjavík nýta innanlandsflugið jafn mikið og hin 290 þúsundin í landinu, sem þýðir að landsbyggðafólk flýgur fimmfalt oftar en höfuðborgarbúar og því er þetta lykilatriði í öllu því samhengi.

Svo er það það að efla flutningskerfi raforku og auka orkuöryggi, það er punktur B.b í áætluninni. Það er náttúrlega lykilatriði til framtíðar að tryggja og bæta þetta kerfi. Svæði eins og Eyjafjörður, Vestfirðir, Suðurnes hafa ekki getað þróast með almennum hætti í byggðaþróun og styrkt sig vegna skorts á bæði orkuöryggi og orkumagni inn á svæðin á undanförnum misserum. Víða á svæðum síðustu 10 til 15 árin hefur verið algjör stöðnun vegna þessa. Síðar í dag munum við koma betur inn á þetta í umræðum um uppbyggingu flutningskerfis í raforku.

Ég ætla að reyna að virða tímamörkin, maður þarf greinilega að fara mjög hratt yfir í þessu.

Víða er komið við í þessari stefnumótandi byggðaáætlun, komið inn á það að jafna aðstöðumun á millilandaflugvöllum og fjölga flughliðum eða millilandagáttum inn í landið. Það eru nokkrir punktar teknir fyrir. Það er efling og uppbygging flugþróunarsjóða, jöfnun verðs á þotueldsneyti og slíkir þættir. Þetta er grundvallarkerfi og uppbygging. Þar gegnir eigendastefna Isavia gríðarlega miklu máli og við þurfum væntanlega að taka þá umræðu síðar þegar færi gefst og betri tími.

Rétt í lokin vil ég koma inn á almenningssamgöngurnar í lofti. Það er að koma á skosku leiðinni og byggja upp það kerfi sem Skotar innleiddu 2005 til uppbyggingar á sínu almenningssamgöngukerfi og hefur reynst gríðarlega vel. Vonandi náum við þeim takmörkum á næstu misserum að koma þessu kerfi á á Íslandi til að efla innanlandsflug og samgöngukerfi landsins.