148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

aðgerðir gegn skattundanskotum og skattsvikum.

561. mál
[14:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ákvað að vera á þessu nefndaráliti með fyrirvara sem ég ætla að gera grein fyrir. Fyrirvarinn er ekki vegna þess að ég hafi neitt á móti því sem stendur í frumvarpinu eða á móti breytingartillögunni, langt því frá. Hins vegar gengur þetta óskaplega skammt og fyrirsögnin á málinu, aðgerðir gegn skattundanskotum og skattsvikum, hert skatteftirlit og skattrannsóknir, aukin upplýsingaöflun o.fl., er afskaplega stór og mikil fyrirsögn fyrir svona lítil skref sem stigin eru í þessa átt.

Nefndin er sammála, eins og fram kom í máli hv. framsögumanns áðan, um að sjá verði til þess að framkvæmdarvaldið gangi lengra og taki á þessum málum og geri það eins fljótt og mögulegt er og tikki ekki bara í það box að nú sé búið að samþykkja frumvarp um aðgerðir gegn skattundanskotum og skattsvikum, fyrir hertu skatteftirliti og skattrannsóknum, því að ekki er búið að því. Það þarf að gera betur. Ég undirstrika það hér og það skýrir fyrirvara minn en auðvitað mun ég styðja málið.