148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

aðgerðir gegn skattundanskotum og skattsvikum.

561. mál
[14:39]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom áðan í máli framsögumanns er ég einn af þeim sem standa að þessu máli. Auðvitað styð ég það að reynt sé að sporna við skattsvikum eins og hægt er. En það er einnig rétt að þetta frumvarp gengur mjög skammt og þess vegna kem ég hér upp til þess að brýna okkur öll í því að reka á eftir fjármála- og efnahagsráðuneyti að koma strax á haustdögum fram með frumvarp þar sem stigin eru stærri skref en hér er gert.

Ég tek mjög alvarlega þær athugasemdir og ábendingar sem bárust hv. efnahags- og viðskiptanefnd, frá ríkisskattstjóra, ASÍ ekki síst og Samtökum ferðaþjónustunnar. Ég vil í því sambandi minna á að nú fyrir helgi var boðað mjög gott skref í því að herða eftirlit með svokallaðri Airbnb-gistingu, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Ég fagna því mjög vegna þess að það er mál sem ég hef borið fyrir brjósti í fimm ár og fjallað um ítrekað. Nú ætla ég bara rétt að vona að þær framhaldsaðgerðir sem eru boðaðar í nefndarálitinu, sem ég stend að, muni ekki taka fimm ár. Þess vegna segi ég að þingið þarf núna að senda þau skýru skilaboð til þeirra sem eru að vinna að frekari frumvarpssmíð út af þessum málum að við þurfum að ganga úr skugga um að þær heitstrengingar gangi eftir. Við þurfum einnig, þegar við förum inn í fjárlagagerð í haust, að gæta að því að þeir sem eftirlitið eiga að vinna fái fjármuni sem duga til þess að þeir geti haldið uppi alvörueftirliti.

Það hefur verið kastað á loft tölum um að svart hagkerfi á Íslandi sé stórt. Nú ætla ég ekkert að taka sérstaklega undir þær tölur sem hafa verið mest í umræðunni en þótt við deildum í þær með tveimur eða þremur er augljóst að það er eftir miklu að slægjast í því að innheimta þau gjöld sem sannarlega hafa verið lögð á og um leið að tryggja að þeir sem stunda atvinnurekstur á Íslandi standi jafnfætis, þ.e. að við séum ekki, með því að sinna ekki eftirliti eða gera eftirlitsaðilum ekki kleift að sinna sínu starfi, í sjálfu sér að hygla þeim sem sigla undir yfirborðinu, gefa ekki upp tekjur sínar og borga ekki af þeim. Þetta skekkir samkeppnisgrundvöll fyrirtækja og okkur er náttúrlega óheimilt að stuðla að því að menn séu ekki jafnsettir. Við þurfum að standa við stjórnsýslulög í þessu landi. Við þurfum að standa við jafnræðisreglu. Við þurfum að standa við það að menn sem eru í sömu atvinnugrein séu jafnsettir.

Auðvitað styð ég frumvarpið og geri það með glöðu geði. Ég vildi bara ánýja það að þó að verk sé hálfnað þá hafið er er býsna langt í land með að það mál sem hér um ræðir sé komið á þann stað sem það á að mínum dómi og fleiri hér inni að vera. Því segi ég enn: Við skulum fylgjast vel með því á haustdögum að hér komi fram veigameira frumvarp um sama efni.