148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[15:10]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar með breytingartillögu. Við fengum á okkar fund fulltrúa frá Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandinu, fulltrúa frá fjölmennri kvennastétt, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, fulltrúa frá Reykjavíkurborg og frá Kvenréttindafélaginu, Félagi kvenna í atvinnulífinu og frá BSRB. Svo fengum við umsagnir frá Alþýðusambandinu, Bandalagi háskólamanna, BSRB og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félagi kvenna í atvinnulífinu, Félagi um foreldrajafnrétti, Ísafjarðarbæ, Kvenréttindafélagi Íslands, Mosfellsbæ, Reykjavíkurborg og Samtökum atvinnulífsins.

Með tillögunni er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra leiði viðræður við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga um sérstakt átak, þjóðarsátt, um bætt launakjör kvennastétta sem starfa hjá hinu opinbera. Tillagan felur í sér annars vegar gerð sérstaks kjarasamnings og hins vegar greiningu á launakjörum fjölmennra kvennastétta.

Meiri hluti gesta og umsagnaraðila var almennt þeirrar skoðunar að bæta þyrfti kjör fjölmennra kvennastétta og að í tillögunni fælist ákjósanleg leið til þess að draga úr launamun kynjanna.

Í umsögn Reykjavíkurborgar, sem er einn stærsti vinnuveitandi umræddra stétta, var sérstaklega fjallað um starfsmatskerfi borgarinnar sem byggt er á jafnlaunastefnu og gefið hefur góða raun. Í umsögninni var þó einnig bent á að þótt talsvert hefði áunnist í því að minnka kynbundinn launamun hjá borginni hefðu greiningar sýnt að launakjör hjá sveitarfélögum væru umtalsvert lægri en hjá ríki og á almennum vinnumarkaði. Má af því leiða hve mikilvægt er að Alþingi samþykki tillöguna.

Fram komu sjónarmið um að fyrirliggjandi tillaga samræmdist ekki vinnu við innleiðingu jafnlaunastaðals, enda væri þar litið til fleiri þátta en menntunar og ábyrgðar líkt og kveðið er á um í tillögunni. Minni hlutinn áréttar að jafnlaunastaðli er m.a. ætlað að tryggja að atvinnurekandi greiði sömu laun fyrir jafn verðmæt störf. Svo virðist sem taka þurfi til skoðunar verðmætamat starfa kvennastétta og leiðrétta það. Eðlilegt er að líta til ákveðinna þátta sem eru vel mælanlegir við það mat og er því kveðið á um að litið verði til menntunar og ábyrgðar.

Fyrir nefndinni kom fram að eitt einkenni íslensks vinnumarkaðar er hversu mjög hann er kynskiptur og það er staðreynd að fjölmennar kvennastéttir sinna einna helst opinberri þjónustu. Á fundum nefndarinnar kom fram að almennt er viðurkennt að samanburður hafi leitt í ljós að kjör kvennastétta séu lakari en kjör hefðbundinna karlastétta. Ýmis sjónarmið voru reifuð um hvernig best væri að gera úrbætur á þessu sviði. Við meðferð málsins fyrir nefndinni voru viðruð þau sjónarmið að til að ná markmiðum tillögunnar væri vænlegra að tryggja samstilltar aðgerðir samfélagsins alls og gera samkomulag um átak til að leiðrétta kjör kvennastétta fremur en að gera sérstakan kjarasamning um slíka leiðréttingu. Einnig komu fram þau sjónarmið að þetta væri vel unnt með réttri aðferðafræði, samanber t.d. hjá Reykjavíkurborg þar sem gert hefur verið samkomulag við flest stéttarfélög um framangreint starfsmatskerfi. Þá komu fram sjónarmið um að orðalag tillögunnar væri of þröngt, þ.e. að það virtist frekar beinast að menntuðum kvennastéttum en kvennastéttum almennt, en markmið tillögunnar er að bæta kjör allra stétta sem búa við viðvarandi lakari kjör en aðrar miðað við menntun og ábyrgð.

Í ljósi markmiðs tillögunnar, og mikilvægis þess að breið sátt náist um efni hennar telur minni hlutinn rétt að taka tillit til umræddra sjónarmiða og leggur því til breytingar á tillögugreininni. Mikilvægt er að stíga ákveðin skref til þess að vinna gegn þeim mun sem oft er á kjörum karla og kvenna eftir stéttum. Minni hlutinn telur rétt að breyta tillögunni þannig að ótvíræðara sé að hún taki til allra fjölmennra kvennastétta sem starfa hjá hinu opinbera. Minni hlutinn telur einnig rétt að leggja meiri áherslu á að vönduð greining verði grundvöllur samkomulags um átak til að leiðrétta kjör þessara stétta. Sömuleiðis að leitast verði við að ná samstöðu allra helstu samtaka innan verkalýðshreyfingarinnar um slíkt átak í kjarasamningum.

Að framangreindu virtu leggur minni hlutinn til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Tillögugreinin orðist svo:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leiða viðræður við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga um sérstakt átak, þjóðarsátt, um bætt launakjör kvennastétta. Ráðist verði í greiningu á launakjörum fjölmennra kvennastétta, í samanburði við aðrar stéttir með sambærilega menntun og ábyrgð sem starfa hjá hinu opinbera. Á grundvelli þeirrar greiningar verði gert samkomulag um átak til að leiðrétta kjör þessara stétta. Leitast verði við að ná samstöðu allra helstu samtaka innan verkalýðshreyfingarinnar um slíkt átak í kjarasamningum og um leið að sérstakar hækkanir á grundvelli þess verði ekki grunnur að launakröfum annarra starfsstétta.“

Undir þetta rita, auk mín, hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Jón Steindór Valdimarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Virðulegi forseti. Skipulagt vanmat á framlagi, menntun og réttindum kvenna er þjóðarböl. Þessi tillaga er djörf og markviss tilraun til að reyna með nýjum hætti að ráðast að rótum þess vanda.