148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

barnalög.

238. mál
[18:28]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. flutningsmanni þessarar tillögu. Öll viljum við styrkja rétt barna til að þekkja uppruna sinn og þar fram eftir götunum. Ég tel hins vegar þessa breytingu, eins og hún liggur fyrir á þingskjalinu sem hér er til umræðu — textinn gengur reyndar alls ekki upp og því tel ég óhjákvæmilegt að málið fari a.m.k. til hv. nefndar aftur milli 2. og 3. umr., þ.e. ef ekki verður fallist á að vísa málinu frá — helst til viðurhlutamikla án þess að leitað hafi verið sjónarmiða allra sem að málum koma. Ég tek sem dæmi að dómsmálaráðuneytið hefur ekki veitt umsögn um málið, ekki hefur verið óskað eftir því. Ég mælist til þess að sú mikla breyting sem hér er lögð til fái ítarlegri og betri umfjöllun hjá þeim sem gerst þekkja til.