148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

kjararáð.

630. mál
[18:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta mál, eins og nokkur önnur mál sem við greiðum atkvæði um hér í kvöld, ber öll merki sýndarmennsku. Ég tel óhætt að álykta að flestir, jafnvel allir þingmenn séu sammála um að gera þurfi breytingar á kjararáði og leggja það jafnvel niður. En það að stjórnvöld, eða í þessu tilviki meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar, skjóti inn þessari tillögu á lokaspretti þingsins, leggi til að ákveðið fyrirkomulag verði aflagt áður en það liggur fyrir hvað tekur við, er mjög undarlegt. Þetta eru ekki góð vinnubrögð, virðulegur forseti. Gefum okkar bara að það sem tæki við væri verra en það fyrirkomulag sem við höfum núna, að mati að minnsta kosti einhverra þingmanna. Hvers vegna skyldu menn þá samþykkja nú að leggja af það fyrirkomulag sem er til staðar án þess að vita hvað tekur við? Þetta eru mjög undarleg vinnubrögð og þar af leiðandi ekki hægt að greiða atkvæði með þessari tillögu þrátt fyrir, eins og ég nefndi áðan, að almennt sé, held ég, samstaða meðal þingmanna um að það þurfi að gera þessar breytingar.