148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

kjararáð.

630. mál
[18:39]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Svo að ég lesi upp og skýri nákvæmlega hvað við erum að fara að greiða atkvæði um, með leyfi forseta:

„Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi: Kjararáð skal, fyrir 1. júlí 2018,“ — það er vegna þess að kjararáð verður fellt úr gildi á þeim tíma, nú í sumar — „kveða upp nýjan úrskurð er feli í sér launalækkun alþingismanna og ráðherra“ — aðeins að nefna að þá er síðasti séns — „sem samsvari því að laun þeirra fylgi almennri launaþróun frá 11. júní 2013“ — það er vegna þess að þorri launafólks, 70% launþega á almennum vinnumarkaði, þurfti að sætta sig við það til að reyna að ná sátt í þessu samfélagi hvað varðar launaþróun. — „Ákvörðunin skal taka gildi eigi síðar en 1. júlí 2018. Ákvæði þetta gildir ekki um forseta Íslands og dómendur.“

Í restina er verið að nefna að við erum einungis að tala um þá aðila sem fengu þessa hækkun á kjördag 2016. Ef við samþykkjum þetta förum við strax í að leiðrétta okkar laun miðað við launaþróun sem við áttum alltaf að miða við, ekki afturvirkt, við höldum þeim peningum sem við fengum alveg frá (Forseti hringir.) kjördegi 2016 — að vísu ekki ég af því að ég lagði þá í að kæra kjararáð og úrskurðað verður um frávísunarkröfu í lok þessa mánaðar. Fólk getur fylgst með.