148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

íslenskur ríkisborgararéttur og barnalög.

133. mál
[18:51]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Hér legg ég til þá einföldu breytingu að í stað þess að ungbarn sem fæðist hér á landi ríkisfangslaust þurfi að bíða í þrjú ár eftir því að fá ríkisfang þurfi það einungis að bíða í eitt. Þetta finnst mér í samræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við innleiðum með þessum lögum, sem gera enga kröfu um að nýfædd börn þurfi að bíða í þrjú ár eftir að fá ríkisborgararétt. Þar er einungis sagt að lög landsins geti sagt fyrir um að börn geti öðlast ríkisborgararétt við fæðingu. Ég hef alveg tekið undir þau sjónarmið að eðlilegt geti verið að bíða aðeins með að veita ríkisfangslausu eða ætluðu ríkisfangslausu barni ríkisfang á Íslandi vegna þess að það gæti komið í veg fyrir hið eiginlega ríkisfang barnsins, en mér finnst eitt ár feikinóg til að komast að niðurstöðu um það og þrjú ár fulllangt fyrir jafn mikilvæg réttindi og það að hafa ríkisfang. Þess vegna leggjum við til þessa breytingu.