148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[19:04]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég fór í framsögu minni fyrir nefndaráliti hv. atvinnuveganefndar í dag yfir hve góð samstaða hefði náðst innan nefndarinnar um þetta mál. Ég verð að endurtaka hrós mitt til félaga minna í atvinnuveganefnd. Mig langar líka að nýta tækifærið til að hrósa hæstv. ráðherra málaflokksins fyrir að hafa lagt fram svo metnaðarfulla áætlun og vann ráðuneytið vel með okkur í að koma á framfæri breytingartillögum okkar. Ég ætla að leyfa mér að trúa að við séum á þeim stað að geta nýtt tækifærið til að setja Íslandi alvörustefnu í öllu er lýtur að orkumálum á næstunni. Hæstv. ráðherra stóð fyrir þingsályktunartillögu um orkuskipti í samgöngum á síðasta kjörtímabili og nú hefur hún skipað hóp um stefnumótun fyrir orkustefnu. Ég held að við getum náð góðri sátt innan samfélagsins um orkumál til framtíðar.