148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

393. mál
[19:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Allir hv. þingmenn hljóta að vera sammála um markmið þessa frumvarps, en eins og hv. þm. Óli Björn Kárason benti mjög vel á áðan er sá réttur sem frumvarpinu er ætlað að tryggja þegar til staðar í fyrirliggjandi lögum og í stjórnarskrá. Það er kannski til marks um málefnarýrð þessarar ríkisstjórnar og skort á sýn, skort á nýjum málum, að hún skuli vera að reyna að skreyta sig með fjöðrum fyrri kynslóða þingmanna, endurvinna mál, samþykkja aftur það sem aðrir þingmenn hafa þegar leitt í lög, réttarbætur sem aðrir þingmenn hafa þegar leitt í lög og í stjórnarskrá. Það er ekki svo að ef einhver tiltekinn hópur er ekki sérstaklega nefndur í lögum, að hann eigi að njóta jafns réttar, þá njóti han ekki þess réttar. Allir einstaklingar skulu njóta jafns réttar samkvæmt stjórnarskrá Íslands. Það að gefa til kynna að sérstaklega þurfi að nefna alla hópa til þess að þeir njóti þess réttar er skaðlegt.