148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

393. mál
[19:13]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Um leið og við afgreiðum þetta mál vil ég þakka hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir góð störf í málinu og sérstaklega framsögumanni málsins, Steinunni Þóru Árnadóttur, og segja að þeim athugasemdum sem hafa komið fram hafi verið svarað, hygg ég, við vinnslu málsins í nefndinni, enda sé ég ekki annað. Leiða mætti að því líkur miðað við umræðurnar að mikil deila sé um málið en undir nefndarálitið rita fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti í nefndinni og full samstaða virðist vera um málið. Hluti af því að leysa það er að setja inn bráðabirgðaákvæði sem felur í sér að þessi lög verði útvíkkuð og nái til fleiri hópa og er ráðherra félags- og jafnréttismála falið að vinna nýtt lagafrumvarp sem verði lagt fram á Alþingi innan árs frá því að þessi lög taka gildi. Ég vil lýsa því yfir að ég mun leggja mitt af mörkum til að tryggja að svo verði.

Ég óska okkur til hamingju með að frumvarp þetta sé að ná hérna í gegn (Forseti hringir.) og sérstaklega að það sé í svona gríðarlega góðri sátt afgreitt úr nefndinni að fulltrúar allra stjórnmálaflokka skuli vera á álitinu. Það sýnir hversu vel það er unnið af hálfu nefndarinnar og sérstaklega framsögumanninum Steinunni Þóru Árnadóttur. Takk fyrir þetta.