148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

393. mál
[19:16]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það gæti jafnvel farið svo að ég færi rétt með hvernig ég muni greiða atkvæði í þessu máli. Mig langar að þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir vinnuna í málinu og hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra fyrir að koma með málið fyrir þingið. Þetta hefur verið lengi í undirbúningi af hálfu framkvæmdarvaldsins og ég veit að fyrrverandi hæstv. félags- og þá húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir, lagði mjög mikið á sig við vinnslu málsins á sínum tíma. Sjálfur lagði ég það fyrir þing í tvígang, en því miður náðist ekki að ljúka því þá. Ég fagna því mjög að málið sé komið til lokaafgreiðslu í þinginu og fagna líka þeirri umræðu sem hér er um að mikilvægt sé að stíga skrefinu lengra í þessu. Ég heyri á umræðunni og orðum hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra að við þurfum ekki að óttast að svo verði ekki gert og munum takast jafnvel á við þau frekari skref í þessu mikilvæga máli þegar í haust.