148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

393. mál
[19:17]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta er dálítið sérkennileg uppákoma sem er að verða hér við afgreiðslu þessara mála þar sem ég stóð í þeirri meiningu að þetta mál væri flutt af hæstv. ríkisstjórn, en það virðist vera einhver misskilningur um að það sé eining innan ríkisstjórnarinnar um málið. Þá finnst mér dálítið undarlegur málflutningur að ekki megi setja lög um neitt sem kveðið er á um í stjórnarskránni. Þá held ég að við þyrftum að taka okkur til og hreinsa býsna vel til í lagasafninu ef það er lagatúlkunin og túlkunin á stjórnarskránni. Við erum með lög um jafna aðstöðu karla og kvenna, verið var að samþykkja þingsályktun um að það þyrfti að fara í vinnu við að jafna kjör karla og kvenna. Samkvæmt þessu segir stjórnarskráin að allir skulu vera jafnir fyrir lögum. Eigum við ekki bara að fara heim, herra forseti?