148. löggjafarþing — 76. fundur,  11. júní 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[21:55]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að hafa þetta örstutt hér. Mig langar að nýta tækifærið og þakka hæstv. ráðherra og öllum nefndarmönnum hv. utanríkismálanefndar fyrir samstarfið í þessu máli. Hér erum við að stíga mikilvægt og gott skref til að ná heildstæðu fyrirkomulagi í markaðssetningu á Íslandi, bæði er varðar vörur og þjónustu, og reyna að ná þeirri heildarsýn og langtímastefnu sem við þurfum að móta saman bæði ríki og atvinnulíf. Ég held að við munum sjá stór og mikilvæg skref stigin með þessu frumvarpi í átt að því að skýra betur hvert hlutverkið er, hvernig við sjáum hlutina vinna betur saman. Ég vona að það náist með frumvarpinu en við verðum auðvitað áfram vakandi yfir því. Sett er inn ákveðið ákvæði sem ég held að sé mikilvægt til að skoða og móta nýtt félagaform sem gæti hjálpað að móta formið í kringum vinnu af þessu tagi enn frekar. Gott starf var unnið í nefndinni þó að snúið væri oft á tíðum. Ég þakka nefndarmönnum kærlega fyrir og hlakka til að fylgjast með þessu mikilvæga verkefni.