148. löggjafarþing — 76. fundur,  11. júní 2018.

skipulag haf- og strandsvæða.

425. mál
[21:57]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti frá umhverfis- og samgöngunefnd um frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða. Þetta er viðamikið nefndarálit og því fylgja breytingartillögur í átta töluliðum. Ég er að hugsa um að óska strax eftir örlitlum meiri tíma til að gera grein fyrir álitinu en hefur verið mælst til að við notum.

Nefndin fékk til sín fjölda gesta og bárust 30 erindi og umsagnir. Nefndin hefur farið yfir það og skoðað mismunandi sjónarmið. Það verður að segjast eins og er að í upphafi voru talsvert skiptar skoðanir um málið.

Með frumvarpinu er lögð til heildstæð löggjöf um skipulag á haf- og strandsvæðum. Þetta er í raun í fyrsta skipti sem slík löggjöf er sett. Þau álitamál sem hlutu hvað mesta umfjöllun hjá nefndinni voru gildissvið frumvarpsins eða afmörkun þess svæðis sem skipulagið nær til og þar með afmörkun haf- og strandsvæða, skipan svæðisráðanna sem fjalla um skipulagið og líftími svæðisráðanna. Gestir nefndarinnar voru allir sammála um að brýnt væri að hefja vinnu við gerð strandsvæðisskipulags. Bent var á að mikil ásókn væri til að mynda í fiskeldi, ferðamennsku og efnistöku á strandsvæðum, sér í lagi í fjörðum, auk þess sem ný sóknarfæri til nýtingar væru til skoðunar. Vinna við gerð strandsvæðisskipulags tekur talsverðan tíma og því mikilvægt að setja um hana ramma svo hægt sé að hefja vinnu við að marka skýra heildstæða stefnu um nýtingu, vernd, mannvirkjagerð, framkvæmdir og umferð með sjálfbærni svæða að leiðarljósi.

Ég ætla að reyna að taka þau atriði úr nefndarálitinu sem snerta breytingartillögurnar sem nefndin gerir. Fyrst að skipulagsvaldinu. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur um langt skeið kallað eftir því að sett verði löggjöf um skipulag haf- og strandsvæða og haldið þeim sjónarmiðum á lofti að í þeirri vinnu verði lögð áhersla á að skipulag strandsvæða, allt að einni sjómílu út frá grunnlínu landhelginnar, verði á forræði sveitarfélaga. Samkvæmt skipulagslögum hafa sveitarfélög haft skipulagsvald innan netlaga en til þessa hefur ekki verið til löggjöf um strandsvæðisskipulag þar fyrir utan. Í vinnunni komu líka fram þau sjónarmið sveitarfélaganna að strandsvæði væru ásamt innfjörðum og flóum nátengd skipulagsáætlunum sveitarfélaga og yrðu þess vegna vart slitin úr samhengi við skipulagsáætlanir þeirra.

Fyrir nefndinni komu líka fram gagnstæð sjónarmið um að mikilvægt væri að skipulagsvald væri í höndum ríkisins en ekki einstakra sveitarfélaga, enda væri oft litið til þrengri svæðisbundinna sjónarmiða á vettvangi sveitarfélaganna en hjá ríkinu. Á þessum vettvangi er mikilvægt að horfa til hagsmuna heildarinnar og landsins alls. Nefndin áréttar að mikilvægt er að virða stjórnarskrárvarinn sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga en leggur um leið áherslu á að umræða um skipulag er og á að vera lýðræðislegt ferli, leitt af stjórnvöldum og kjörnum fulltrúum þar sem almenningur og hagsmunaaðilar eigi að hafa aðkomu. Um er að ræða svæði sem þarf aðkomu bæði ríkisvalds og sveitarfélaga. Fyrirliggjandi frumvarpi er ætlað að tryggja þá breiðu aðkomu og skýra skipulagsvaldið.

Næst ætla ég að snúa mér að gildissviðinu og afmörkun svæða. Af umsögnum og umfjöllun gesta mátti ráða að gildissviðið var ekki auðskilið og nægilega vel afmarkað. Nefndin leggur því til orðalagsbreytingu í því skyni að skýra það. Auk þess er tillaga um að færa ákveðin atriði úr ákvæði um gildissvið í orðskýringar til einföldunar og til að tryggja skýrleika og samræmi.

Tillagan um gildissviðið hljómar svo:

„Lög þessi gilda um stefnu um skipulag haf- og strandsvæða og um strandsvæðisskipulag.

Lög þessi gilda þó ekki um nýtingu og vernd fiskstofna eða annarra lifandi auðlinda hafsins og hafsbotnsins, að undanskilinni nýtingu sem háð er leyfi til efnistöku og eldi eða ræktun nytjastofna.“

Þá var talsverð gagnrýni um afmörkun á bæði skipulagssvæðinu og því svæði sem stefnu um skipulag haf- og strandsvæða er ætlað að ná til. Nefndin leggur til að innri mörk eða afmörkun stefnu um skipulag haf- og strandsvæða og mörk skipulags strandsvæða verði þau sömu strandmegin, þ.e. frá netlögum, því að stefnan nær út að ytri mörkum efnahagslögsögunnar en þar sem strandsvæðisskipulagið er unnið nær það að viðmiðunarlínunni sem tilgreind er í 5. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Samt sem áður er óhjákvæmilegt að stefna um skipulag haf- og strandsvæða nái til þess lands þar sem samspil hafs og lands gætir. Þar sem stefnan er hluti af landskipulagsstefnum tvinnast sú vinna óhjákvæmilega saman. Skipulag strandsvæða mætir hins vegar aðalskipulagi sveitarfélaga við netlög.

Nefndin leggur til þær breytingar á svæðisráðunum að fulltrúar í þeim verði átta manns, svo að aðliggjandi sveitarfélög hafi þar alls þrjá fulltrúa í stað eins áður. Samband íslenskra sveitarfélaga verði áfram með einn fulltrúa og þannig verði meira jafnvægi tryggt í skipun svæðisráðanna þar sem fulltrúar ráðuneyta verða áfram fjórir og fulltrúar sveitarfélaga því jafnmargir. Þá er lagt til að ákvarðanir í ráðinu þurfi að taka með auknum meiri hluta þannig að til afgreiðslu þurfi að lágmarki sex fulltrúar að samþykkja mál. Þetta er til að mæta þeim áhyggjum að fulltrúar ríkisins hefðu neitunarvald í svæðisráðinu.

Þá var í frumvarpinu lagt til að umhverfissamtök ættu áheyrnaraðild að svæðisráði. Nefndin leggur til breytingu á því en áréttar samt sem áður mikilvægi þess að ákvæði Árósasamningsins séu virt og nauðsyn þess að fá fram sem fjölbreyttust sjónarmið sem fyrst í skipulagsferlinu. Umhverfisverndarsamtök hafa ákveðna sérstöðu þar sem þeim er ekki ætlað að gæta fjárhagslegra hagsmuna heldur hagsmuna umhverfisins í samræmi við Árósasamninginn. Nefndin leggur því til þá breytingu að ekki verði áheyrnaraðild en að ráðherra skipi samráðshóp sem verði svæðisráði til samráðs og ráðgjafar þegar það vinnur að gerð strandsvæðisskipulags fyrir viðkomandi strandsvæði. Með því væri hægt að tryggja að sjónarmið og athugasemdir fulltrúa þeirra aðila sem sitja í samráðshópnum kæmu fram snemma, bæði í undirbúningsferlinu og við gerð skipulagsáætlunar.

Gert er ráð fyrir að í samráðshópnum verði a.m.k. fimm fulltrúa tilnefndir af ferðamálasamtökum, samtökum atvinnulífsins, umhverfisverndarsamtökum og útivistarsamtökum. Lagt er til að fulltrúar umhverfisverndarsamtaka verði tveir og að annar þeirra komi frá umhverfisverndarsamtökum á viðkomandi svæði.

Því til viðbótar er gert ráð fyrir að svæðisráð geti tilnefnt eða óskað eftir tilnefningu allt að þriggja fulltrúa til viðbótar í samráðshópinn telji það þörf á að leita eftir viðbótarsjónarmiðum sem eiga t.d. aðeins við á tilteknum svæðum.

Þá var nokkuð rætt um breytingar á strandsvæðisskipulagi. Þó að skipulag sé samþykkt má alltaf gera ráð fyrir að gera þurfi breytingar. Því leggur nefndin til þá breytingu að á öllum tímum verði starfandi svæðisráð sem geta tekið strandsvæðisskipulag til endurskoðunar verði þörf á því. Lagðar eru til breytingar á því hvernig hægt er að eiga frumkvæði að breytingum þannig að frumkvæðið geti komið hvort sem er frá sveitarfélögum, Skipulagsstofnun eða ráðherra.

Nokkuð var í umsögnum komið inn á mörk hafnarsvæða eða áhrif skipulags á hafnarsvæðum á strandsvæðisskipulag. Í nefndarálitinu er gerð ítarleg grein fyrir því hvernig vinna má skipulag á hafnarsvæðum og strandsvæðisskipulag saman, sem ég ætla ekki að fara nánar yfir en bendi á að liggur fyrir í þingskjali.

Nefndin ræddi mikilvægi þess að vinnan við fyrstu strandsvæðisskipulögin hefjist sem fyrst og leggur áherslu á að fjármögnun til að vinna strandsvæðisskipulag samkvæmt bráðabirgðaákvæði fyrir Austfirði og Vestfirði verði tryggt, eins og fram kemur í fjármálaáætlun. Þá þarf að sjálfsögðu að fylgja því eftir að fjárheimildir Skipulagssjóðs verði í samræmi við frumvarpið og fjármálaáætlun.

Þá áréttar nefndin mikilvægi þess að vinnan fyrir þau svæði gangi eins fljótt fyrir sig og auðið er, á þeim hraða sem er skynsamlegur í skipulagsvinnu.

Nefndinni bárust ábendingar um að ekki væri nægjanlega skýrt í hvaða tilvikum leyfisveitendum væri heimilt að fresta afgreiðslu á leyfisumsókn þar til strandsvæðisskipulag hefði tekið gildi fyrir viðkomandi svæði. Það var sem sagt bent á að lagaskilyrðin væru ekki nægilega skýr. Nefndin leggur til breytingu á 18. gr. til að taka af allan vafa um að leyfisveitanda er einungis heimilt að fresta afgreiðslu á umsókn um leyfi á strandsvæði samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða þegar umsókn er lögð fram eftir að tillaga að strandsvæðisskipulagi hefur verið auglýst. Það þarf að vera búið að vinna tillöguna og auglýsa hana til þess að leyfisveitanda sé heimilt að fresta afgreiðslu umsóknar. Lögin hafa því ekki áhrif á mál sem eru nú þegar í ferli.

Þá ætla ég að lokum að gera grein fyrir því (Forseti hringir.) að nefndin leggur til endurskoðun. Nefndinni barst talsvert af athugasemdum og leggur hún til töluvert (Forseti hringir.) af breytingum. Þá leggur nefndin til bráðabirgðaákvæði um að þar sem löggjöfin er ný (Forseti hringir.) verði látið reyna á þetta. —Virðulegi forseti. Í upphafi óskaði ég sérstaklega eftir viðbótartíma.

(Forseti (BHar): Já. Forseti varð við því. Það komu þrjár aukamínútur við tímann.)

Lagt er til bráðabirgðaákvæði um endurskoðun um leið og strandsvæðisskipulagi Vestfjarða og Austfjarða verði lokið en þó eigi síðar en að þremur árum liðnum.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Bergþór Ólason formaður, Líneik Anna Sævarsdóttir framsögumaður, Ari Trausti Guðmundsson, Hanna Katrín Friðriksson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Jón Gunnarsson, Karl Gauti Hjaltason, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Vilhjálmur Árnason. Sara Elísa Þórðardóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.