148. löggjafarþing — 76. fundur,  11. júní 2018.

Ferðamálastofa.

485. mál
[22:25]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. flutningsmanns er hér um að ræða töluvert mikla breytingu á starfsemi Ferðamálastofu og stjórnsýslu málaflokksins í heild. Þannig er hlutverk Ferðamálastofu hvað varðar markaðssetningu í raun og veru alveg tekið út en þeim mun meiri áhersla lögð á megintilgang stofnunarinnar sem er að fylgjast með og stuðla að þróun ferðaþjónustunnar sem mikilvægrar og sjálfbærrar grunnstoðar í íslensku samfélagi, að svo ég vitni í greinargerð frumvarpsins.

Í raun má segja að verið sé að breyta Ferðamálastofu í eins konar eftirlitsstofnun. Ný verkefni tengjast til að mynda, eins og vel er komið inn á í nefndarálitinu, öryggisáætlunum og umsjón með starfi nýs ferðamálaráðs. Hlutverk ferðamálaráðs er sömuleiðis verulega breytt en hlutverkið er að vera ráðherra til ráðgjafar um áætlanagerð og langtímastefnumótun í ferðamálum ásamt því að hafa og veita ákveðna yfirsýn yfir áætlanagerð og stefnumótun í ferðamálum, framtíðarþróun og samspil greinarinnar og stjórnvalda. Það er því eðlilegt að í því sitji fulltrúar þeirra lykilráðuneyta sem tengjast ferðaþjónustunni auk fulltrúa frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Eins og hv. framsögumaður kom inn á í nefndarálitinu taldi atvinnuveganefnd ekki rétt að ferðamálastjóri ætti sæti í ráðinu heldur sæti aðeins fundi ráðsins, eins og verið hefur, með tillögurétt og málfrelsi. Í staðinn kemur inn annar fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem skal þá vera fulltrúi markaðsstofa landshlutanna en eðlilegt hlýtur að teljast að fulltrúi þeirra eigi aðkomu að ráðinu enda eru alls um 850 fyrirtæki að baki markaðsstofunum og 66 sveitarfélög. Til samanburðar má nefna að alls eru 482 fyrirtæki félagar í Samtökum ferðaþjónustunnar samkvæmt upplýsingum á heimasíðu þeirra.

Heilt yfir held ég að með þessum breytingartillögum séum við að færa frumvarpið til betri vegar. Vil ég nýta þetta tækifæri til að þakka hv. nefndarmönnum í atvinnuveganefnd fyrir góða samvinnu og að öðrum ólöstuðum sérstaklega hv. framsögumanni Njáli Trausta Friðbertssyni. Eins og ég hef komið inn á áður í þessum ræðustól er staðreyndin sú að ferðaþjónustan á Íslandi er líklega okkar mikilvægasta atvinnugrein í dag og því sérstaklega mikilvægt að við leggjum okkur fram við að skapa henni stjórnsýslu og stuðning þannig að hún geti sem mest vaxið og dafnað. Það frumvarp sem hér er lagt fram er hænuskref í þá átt en við eigum vonandi eftir að eiga fjölmörg uppbyggileg og skemmtileg samtöl um ferðaþjónustuna í haust og næstu misseri.