148. löggjafarþing — 76. fundur,  11. júní 2018.

pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun.

484. mál
[22:28]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég kynni hér nefndarálit atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Brynhildi Pálmarsdóttur, Heimi Skarphéðinsson og Sigrúnu Brynju Einarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Guðnýju Hjaltadóttur og Martein Áka Ellertsson frá Félagi atvinnurekenda, Matthildi Sveinsdóttur og Tryggva Axelsson frá Neytendastofu, Skarphéðin Berg Steinarsson frá Ferðamálastofu, Skúla H. Skúlason frá Ferðafélaginu Útivist og Ásberg Jónsson og Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Félagi atvinnurekenda og WOW air, Ferðamálastofu, Ferðafélagi Íslands, Neytendastofu og Samtökum ferðaþjónustunnar.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði heildarlöggjöf um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun í stað gildandi laga um alferðir. Frumvarpið byggist á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins ESB 2015/2302 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og um breytingu á tilteknum gerðum Evrópusambandsins sem vísað er til í 34. gr. frumvarpsins.

Í hinni nýju tilskipun er upplýsingaskylda seljanda aukin og réttindi ferðamanna sett fram með ítarlegri hætti. Skilgreining á hugtakinu pakkaferð er útvíkkuð og því falla undir ákvæðin fleiri ferðir en samkvæmt gildandi lögum og að sama skapi eykst kostnaður seljenda.

Markmið tilskipunarinnar er einkum að færa regluverkið til nútímans enda hafa viðskiptahættir og söluaðferðir á þessu sviði orðið fjölbreyttari. Skilgreiningar samkvæmt frumvarpinu taka mið af þessu og undir hugtakið pakkaferð falla nú ferðir sem settar eru saman á fjölbreyttari hátt en áður og svokölluð samtengd ferðatilhögun. Einnig eru ákvæði um upplýsingaskyldu seljanda, breytingar á og framsal ferða og réttindi ferðamanns og skyldur seljanda og skipuleggjanda meðan á ferð stendur.

Þá eru í frumvarpinu ákvæði um vernd gegn ógjaldfærni og er lagt til í frumvarpinu að fyrirkomulag tryggingarskyldu vegna sölu á pakkaferðum verði óbreytt frá gildandi lögum. Þetta atriði var nokkuð rætt við umfjöllun um málið í nefndinni og komu fram sjónarmið um að eðlilegt væri að breyta fyrirkomulaginu t.d. á þann veg að komið verði á fót tryggingarsjóði til endurgreiðslu fjármuna til neytenda í þeim tilvikum þegar sá sem veitir þjónustu verður ógjaldfær eða rekstur stöðvast. Vísað var til þess fyrir nefndinni að dæmi væru um að ferðaþjónustuaðilar þyrftu að fá ábyrgð banka fyrir tryggingarfjárhæð. Nefndin telur rétt að ráðherra skoði þetta atriði í þaula með tilliti til verndar neytenda enda liggur fyrir að ákvæði tilskipunarinnar veita nokkurt svigrúm við útfærslu tryggingarskyldunnar.

Eftir að hafa farið í gegnum og rætt þær fjölmörgu athugasemdir sem bárust við frumvarpið leggur nefndin til nokkrar breytingar á frumvarpinu:

Í fyrsta lagi er lögð til breyting tvívegis í 1. tölulið 4. gr. frumvarpsins í þá veru að orðalagið ,,að vera í eðlilegum tengslum við“ komi í stað orðanna ,,órjúfanlegur hluti“ enda nær það að mati nefndarinnar betur yfir viðeigandi hugtak tilskipunarinnar (e. intrinsically). Þó má benda á að það verður ávallt túlkunaratriði hverju sinni hvort tiltekin þjónusta við ferðamenn sé í eðlilegum tengslum við flutning farþega, gistingu eða leigu á ökutækjum og því er ekki unnt að kveða í eitt skipti fyrir öll á um það um hvers konar þjónustu geti verið að ræða. Í öðru lagi leggur nefndin til að vísað verði til bifreiða og bifhjóla sem krefjast ökuréttinda í A-flokki í c-lið 1. tölulið 4. gr. í stað þess að vísa til skráningarskyldra ökutækja sem er víðtækara hugtak. Í þriðja lagi er lagt til breytt orðalag 2. og 5. tölulið 4. gr. þar sem vísað er til,,tegundar ferðaþjónustu“ og telur nefndin heppilegra að orðið ,,tegund“ falli brott svo að ekki verði skörun við hugtakið ,,ferðatengd þjónusta“ í 1. tölulið 4. gr. frumvarpsins. Í fjórða lagi er lögð til breyting við 4. mgr. 18. gr. þannig að skýrt verði að kostnaður sem ferðamaður getur fengið endurgreiddan frá skipuleggjanda eða smásala takmarkist við nauðsynlegan kostnað vegna vanefnda þeirra síðarnefndu. Í fimmta lagi leggur nefndin til að í stað endurgreiðslu verði vísað til afsláttar í 20. gr. Í sjötta lagi er lagt til að orðinu smásali verði bætt við 3. mgr. 26. gr. þar sem það hefur fallið út fyrir mistök.

Loks leggur nefndin til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2019, verði frumvarpið að lögum, til að þeir sem falla undir lögin hafi nokkurn aðlögunartíma. Nefndin beinir því til ráðherra að fyrir þann tíma hafi verið farið yfir álitamál um fyrirkomulag tryggingar sem getið er um fyrr í áliti þessu.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem ég fór yfir hér á undan.

Undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður, Njáll Trausti Friðbertsson, Inga Sæland, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Sigurður Páll Jónsson og Smári McCarthy, sem ritaði undir álit þetta með fyrirvara um fyrirkomulag tryggingar samkvæmt VII. kafla frumvarpsins. Þorgerður K. Gunnarsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu.

Fyrir hönd nefndarinnar legg ég til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali.