148. löggjafarþing — 76. fundur,  11. júní 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[23:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls í þessari umræðu um þetta mál einfaldlega vegna þess að ég hafði heyrt hér mjög góðar og ítarlegar ræður málshefjanda og fleiri þingmanna, þingmanna Miðflokksins, og ekki hvað síst hv. þm. Ólafs Ísleifssonar, sem rökstuddi þetta mál mjög vel.

Svo heyrði ég ræðu hv. þm. Willums Þórs Þórssonar og ég verð að vera hreinskilinn, virðulegur forseti: Mér brá í brún. Hv. þingmaður er þingmaður Framsóknarflokksins, flokks sem var stofnaður til að vera róttækur umbótaflokkur og flokkur sem var róttækur umbótaflokkur fyrir ekki svo löngu og setti það á oddinn, var með það sem eitt af sínum megináhersluatriðum, að afnema fyrirkomulag verðtryggingar á íslenskum fjármálamarkaði; mál sem sá flokkur barðist fyrir árum saman, fékk tækifæri til þess, í ríkisstjórn á árunum 2013–2016, að uppfylla þau fyrirheit sem hann hafði gefið um þetta mál og, verður að segjast, virðulegur forseti, náði ekki að klára það vegna þess að kjörtímabilið kláraðist ekki og vegna þess að samstarfsflokkurinn á þeim tíma, ekki hvað síst hæstv. núverandi fjármálaráðherra, sem þá var líka fjármálaráðherra, hafði engan áhuga á því.

Þegar ég heyrði hv. þm. Willum Þór Þórsson koma hér upp og halda því fram við þingheim að menn ættu að hafa sig hæga og ekki að vera að vonast til þess að þetta mál yrði drifið hér í gegn vegna þess að það væri komið í ferli hjá hæstv. fjármálaráðherra, þá brá mér í brún; að hv. þingmaður teldi raunverulega eða héldi því a.m.k. fram að hæstv. fjármálaráðherra væri líklegur til þess að klára þetta mál eftir að það kæmist í ferli, faglegt ferli. Hv. þingmaður flokks sem taldi sig róttækan umbótaflokk kemur hér og reynir að útlista fyrir þinginu að málið eigi að fara í ferli og við eigum ekki að vera svona óþolinmóð, það eigi að skoða þetta frá öllum hliðum, mál sem Framsóknarflokkurinn er búinn að berjast fyrir, og í miklu róttækari útgáfu en við erum að fjalla um hér, árum saman. Nú er tækifæri til að ná þessu stóra skrefi í þessu stóra máli. Þá kemur þingmaður Framsóknarflokksins og segir þingmönnum að hafa sig hæga, málið sé komið í ferli hjá hæstv. fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir að hæstv. forseti skilji að mér sé mikið niðri fyrir að heyra slíkan málflutning frá þingmanni Framsóknarflokksins þegar þetta bætist við það að sá flokkur hefur talað fyrir ýmsum stórum umbótamálum á undanförnum árum, en þau hafa nú öll verið látin niður falla í þessu stjórnarsamstarfi. Framsóknarflokkurinn boðaði til blaðamannafundar með samtökum um betri spítala á betri stað. Frjáls samtök féllust á að halda blaðamannafund með Framsóknarmönnum rétt fyrir kosningar vegna þess að Framsóknarmenn ætluðu að gera það að lykilatriði í sinni kosningabaráttu að byggður yrði nýr Landspítali á nýjum stað. Framsóknarflokkurinn gaf þetta mál eftir áður en kom að stjórnarmyndun.

Núverandi hæstv. samgönguráðherra hélt ótal ræður um mikilvægi þess að menn kæmust ekki upp með það sem stefndi í í málefnum Arion banka. Sá hæstv. ráðherra og flokkur hans var ekki fyrr kominn í ríkisstjórn en 180° beygja var tekin í því máli, algjör eftirgjöf í málefnum Arion banka. Svo sjáum við það sama gerast núna með þetta stóra mál, þetta stóra ókláraða mál Framsóknarflokksins, að þingmaður þess flokks kemur hér í ræðustól og segir að við eigum ekkert að vera að hamast í því að klára þetta núna, málið sé komið í nefnd, málið sé komið í ferli, hæstv. fjármálaráðherra ætli að skoða þetta.

Virðulegur forseti. Þetta er ekki trúverðugur málflutningur. Ég verð að segja eins og er að mér sárnar að þessi málflutningur skuli koma frá flokki sem áður var róttækt umbótaafl í íslenskum stjórnmálum en vill nú setja málin í nefnd. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)