148. löggjafarþing — 76. fundur,  11. júní 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[23:22]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög en fann mig knúinn til að koma hér í kjölfar ræðu formanns Miðflokksins, hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hann ræddi um Framsóknarflokkinn meira en annað í þeirri ræðu og hann tengist því máli sem við ræðum hér og þingsályktunartillögunni sem Alþingi samþykkti. Ég vil bara að staðreyndir komi fram, þ.e. að sú þingsályktunartillaga sem var samþykkt hér á Alþingi var upphaflega lögð fram, þetta er í þriðja sinn hygg ég sem hún er lögð fram, af þingmönnum Framsóknarflokksins, m.a. af 1. flutningsmanni, hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni. Hann var flutningsmaður í þessu máli, enda voru það þingmenn Framsóknarflokksins sem lögðu málið upphaflega fram og í þá tíð var hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins.

Staðreyndin er sem sagt sú að þetta er hluti — rétt sem hv. þingmaður sagði — af stefnu Framsóknarflokksins og var lagt fram í tíð hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar, sem þá var flutningsmaður á málinu. Eini munurinn er sá að nú tókst okkur Framsóknarmönnum að koma þessu máli áleiðis og í gegn og fá það samþykkt á Alþingi.