148. löggjafarþing — 76. fundur,  11. júní 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[23:24]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Það er ástæða til að árétta það að í 40 ár, síðan 1979, hefur staðið yfir samfélagsleg tilraun þar sem íslenskir þjóðfélagsborgarar eru tilraunadýrin. Íslenskir þjóðfélagsborgarar hafa greitt þessa tilraun dýru verði. Þúsundir og aftur þúsundir fjölskyldna, íslenskra fjölskyldna, foreldrar með börn, hafa mátt hrekjast af heimilum sínum vegna þessarar samfélagslegu tilraunar. Þessi samfélagslega tilraun er tilraun til að stjórna landinu eins og það sé verkfræðilegt úrlausnarefni. Því megi bara stilla upp eins og það sé vélgengt og lúti lögmálum kúlulegunnar og tannhjólsins. En efnahagslífið er óvart, herra forseti, ekki vélrænt. Það lýtur ekki verkfræðilegum lögmálum. Efnahagslífið er síkvikur vefur sem byggist á samskiptum fólks. Að því leyti til er efnahagslífið ekki vélrænt heldur lífrænt.

Réttlætingin fyrir þessari verkfræðilegu tilraun er þessi: Það á að bæta lánveitanda upp að á lánstímanum rýrni peningar í verðgildi. Það er það sem er eðli verðbólgu. Verðbólga er verðrýrnun peninga og af því peningarnir rýrna í verði þarf að borga fleiri peninga fyrir vöruna, verðið á vörunum hækkar. Þetta er það sem við köllum verðbólgu.

Verðbólga er ekki vísitala neysluverðs eða nein önnur vísitala. Vísitala neysluverðs er tilraun, viðleitni, til að mæla fyrirbæri sem í sjálfu sér er erfitt að kasta tölulegum mælikvarða á. Nú blasir það við að sá mælikvarði sem hér hefur verið notaður, þ.e. vísitala neysluverðs, innihaldandi þennan húsnæðislið, er eins ófullkominn og lélegur mælikvarði og hann getur mögulega orðið. Hann hefur ekkert með verðrýrnun peninga að gera þegar húsnæðisliðurinn hefur náð þessu vægi sem menn sjá. Húsnæðisliðurinn hefur farið hækkandi bröttum skrefum á sama tíma og almennt verðlag í landinu hefur farið lækkandi. Hækkunin á húsnæðisliðnum á sér rætur í allt öðru en verðrýrnun peninga. Hækkunin á sér rætur í þeim þáttum sem ég gat um hér áðan og öðrum skyldum þáttum. Það er stefna sveitarfélaga, sérstaklega stórs sveitarfélags þar sem við erum nú reyndar stödd, sem felur í sér lóðaskort og aðra sérvisku. Það er það að hér hafa flætt inn ferðamenn sem taka upp stóran part af húsnæði sem annars hefði verið til ráðstöfunar fyrir íbúana. Þetta hefur ekkert með verðrýrnun peninga að gera. En þessi áhrif birtast í vísitölunni eins og hún er sett saman með húsnæðisliðinn inni.

Ég vil leyfa mér að segja að það má alveg spara sér það nefndastarf sem hér er vísað til, vegna þess að þessar staðreyndir liggja á borðinu. Það er staðreynd sem verður ekki í móti mælt, sem fjármálaráðherra hefur kynnt í svari við fyrirspurn, sem sá sem hér stendur lagði fram, að á sama tíma og almennar verðhækkanir, (Forseti hringir.) gáfu tilefni til þess að hækka höfuðstól lánanna um 15 milljarða þá leggur húsnæðisliðurinn aðra 118 (Forseti hringir.) ofan á. Þarf frekari vitnanna við, herra forseti?