148. löggjafarþing — 76. fundur,  11. júní 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[23:30]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Þorsteinn Sæmundsson) (M):

Hæstv. forseti. Við erum ýmsu nær eftir þessa umræðu. Ég þakka fyrir hana. Við vitum t.d. núna að Samfylkingin skilar auðu í umræðunni. Við vitum að Píratar gera það einnig. Við vitum að þingmaður VG skilur hvorki upp né niður. Ég trúi honum vel. (Gripið fram í: Einmitt.) Við vitum líka að hv. þm. Willum Þór Þórsson er búinn að rita ræður tvisvar og ég þakka honum kærlega fyrir það. Hann flutti mál sitt vel eins og vant er og var settur í þá aðstöðu enn einu sinni af hálfu Framsóknarflokksins að verja vondan málstað, sem hann gerði mjög vel. Hann sagði áðan að ég hefði samþykkt tillögu þessa efnis árið 2016. Það er alveg rétt, en ég gerði það vegna þess að þá taldi ég að lengra væri ekki hægt að komast. Jú, ég samþykkti tillöguna sem kom fram 8. maí, en hvernig var staðan þá? Þá var frumvarpið sem nú er til 2. umr., inn í nóttina á síðasta degi þingsins, búið að liggja í nefnd í þó nokkurn tíma því að það var lagt fram í mars, ef ég man rétt, svo að það sé skýrt, herra forseti.

Ef maður heldur að maður nái ekki öllum málum sínum fram gerir maður kannski það næstbesta. Hitt er svo annað mál að ég lofa því staðfastlega eins og ég stend hér að í september næstkomandi, væntanlega 12.–13., mun þetta frumvarp koma fram aftur, vegna þess að það er fullrannsakað, hv. þingmaður. Í árslok 2014 komu tvö álit úr nefnd um verðtryggingu sem þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafði skipað tæplega tveimur árum fyrr. Hún lagði áherslu á að leggja af verðtryggingu. Hún gerði það. Og núna á dögunum fáum við þessa skýrslu um peningastefnu sem gefur okkur vísbendingar í nákvæmlega þá átt. Hvenær er nóg rannsakað? Væntanlega aldrei.

5. júní sl. fagnar formaður Framsóknarflokksins því gríðarlega að þetta mál skuli vera komið fram og segir: Við Framsóknarmenn höfum alltaf stutt þetta mál og erum búin að flytja það misserum saman. Svo fá Framsóknarmenn tækifæri til að styðja málið og hvað gerist þá? Ekkert. Það er hins vegar eitt sem er klárt núna, og þetta er viðbót við það sem ég sagði áðan, vegna þess sem Sjálfstæðisflokkurinn gerði í umræðunni. Hann þuldi upp nefndarálit og hljóp á dyr. Stórmannlegt.

Herra forseti. Það sem gerist á morgun er að þeir sem ekki vildu, þorðu eða gátu tekið þátt í umræðunni í kvöld og ekki vildu, þorðu eða gátu tekið skýra afstöðu og sagt hana frá hjarta sínu fá tækifæri til þess á morgun, því að frumvarpið kemur til atkvæða á morgun. Þá fá menn að viðhöfðu nafnakalli að upplýsa þjóðina um afstöðu sína til þess hvort menn eiga að halda áfram að bera drápsklyfjar verðtryggingar eða ekki, hvaða skýringu og skoðun menn hafa á því. Ég veit að einn hópurinn vill bíða eftir því að við fáum evru, sem tekur 12 ár. Hvað kostar það heimilin? Bara síðustu fimm hefur það kostað þau 108 milljarða, þannig að við getum nokkurn veginn reiknað það út.

Nefndin skilar af sér í haust, ef hún þá gerir það, fyrir algjörlega áhugalausan fjármálaráðherra um þetta mál. Hvað gerir hann við skýrsluna? Hleypur hann til og flytur svona frumvarp eins og hér liggur fyrir? Mér þætti gaman að sjá það, eins og Halli og Laddi sögðu forðum. Ég hefði mikinn áhuga á því að heyra það og það myndi koma mér verulega á óvart.

Á morgun gefst mönnum tækifæri til að sýna hug sinn í verki, að tjá hug sinn í orði. Í millitíðinni geta menn sofið á þessu máli og safnað sér kjarki ef þeir vilja til að koma á morgun til atkvæðagreiðslu um þetta frumvarp, um þetta réttlætismál sem skiptir 100 þús. heimili í landinu máli og lýsa yfir sérstökum áhuga sínum, eða áhugaleysi, á málefnum þeirra 100 þús. heimila.

Herra forseti. Ég hlakka til morgundagsins og get varla beðið eftir því að komast að því hverjir það eru sem munu standa með sjálfum sér og hverjir munu beygja af leið og beygja af.

Auðvitað vona ég (Forseti hringir.) að menn finni hjá sér dug og kjark og þor til að standa með sjálfum sér (Forseti hringir.) og til að standa einu sinni með heimilum þessa lands.