148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

samkomulag um þinglok.

[13:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Um leið og ég byrja á að óska mér og Birgi Ármannssyni til hamingju með 100 ára afmælið vildi ég gjarnan að skapið í mér væri léttara vegna þess að nú hefur mér borist til eyrna að stjórnarliðar ætli sér ekki að standa við það samkomulag sem var gert um þinglok um að 8. málið á dagskrá, mál Miðflokksins, kæmi til atkvæðagreiðslu í þingsal, heldur er búið að leggja fram og er á dagskrá frávísunartillaga til að koma í veg fyrir að málið fái eðlilega afgreiðslu.

Þetta er ekki það sem samið var um. Hér var samið um að þessi tillaga kæmi til afgreiðslu í þingsal. Ég óska eftir því að hlé verði gert á þessum þingfundi og að þingflokksformenn eða e.t.v. formenn setjist niður á fundi til að fá botn í þetta mál, til að tryggja að það fái þá afgreiðslu sem samið var um.