148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

samkomulag um þinglok.

[13:38]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er nú alveg ótrúlegt að heyra þennan málflutning hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að tala um svik. Það sem var rætt um milli formanna flokkanna var að hér myndi eitt mál frá hverjum þingflokki hljóta afgreiðslu í sal. Það var líka ljóst að það kynni að koma fram málsmeðferðartillögur eins og gerðist til að mynda í tilfelli tillögu Pírata um borgaralaun þar sem því máli var vísað til ríkisstjórnar. Hér liggur fyrir málsmeðferðartillaga. Hér er ekki verið að svæfa mál í nefnd eða ekki afgreiða mál, heldur er einmitt verið að afgreiða mál með málsmeðferðartillögu. Það er fullnaðarafgreiðsla. Það gengur ekki að hv. þingmenn leyfi sér að koma hér upp og tala um svik þegar þetta er það sem hefur verið rætt.

Svo óska ég hv. fimmtugum karlkyns þingmönnum til hamingju með afmælið.