148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

samkomulag um þinglok.

[13:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta hlý orð í minn garð og fjölskyldu minnar áðan. Varðandi athugasemdir hv. þingmanna Miðflokksins vil ég segja að ég tek eindregið undir þá lýsingu sem hæstv. forsætisráðherra var með áðan um að samkomulagið fól í sér að stjórnarandstöðuflokkarnir gætu hver um sig komið máli í umræðu í þinginu, en hins vegar lá ljóst fyrir að það gæti orðið með ýmsum hætti hvernig þeim málum lyktaði. Tryggt yrði að málin væru afgreidd út úr nefnd og þau fengju umræðu og afgreiðslu á einn eða annan hátt. Eins og hefur verið rakið hefur það í sumum tilvikum gerst með því að samþykktar hafa verið breytingartillögur og í öðrum tilvikum hafa verið samþykktar frávísanir til ríkisstjórnar með sérstökum tilmælum um að tilteknir þættir verði skoðaðir. Í þessu máli má segja að tillaga meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar gangi einmitt út á að mál Miðflokksins eigi sér það framhaldslíf (Forseti hringir.) að það fái umfjöllun í starfshópum eða nefndum á vegum ríkisstjórnarinnar þannig að málið deyi ekki eins og það myndi gera ef það væri fellt í atkvæðagreiðslu.