148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

samkomulag um þinglok.

[13:42]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér eru býsna stór orð látin falla af hálfu fulltrúa Miðflokksins, sem er kannski í takt við það sem þeir hafa stundað síðustu daga. Á fundum formanna flokkanna kom fram að þeir vildu fá eitt mál eins og allir aðrir, eðlilega, sem var reyndar allt annað mál en þetta. Þetta mál var einmitt vanbúið, hafði ekki verið reifað í nefnd þrátt fyrir að það hefði verið þar og aldrei tekið upp af fulltrúum Miðflokksins. Engu að síður komum við til móts við Miðflokkinn og sögðum að það væri eðlilegt að hann fengi sitt mál á dagskrá. Það fær síðan eðlilega málsmeðferð og við bregðumst við með þeim hætti sem við viljum gera og teljum hæfa þessu máli, enda var búið að samþykkja annað mál fyrr á þinginu um mjög svipað ef ekki nákvæmlega sama efni. Það er komið í eðlilegan farveg og þá er eðlilegt að vísa þessu máli á þann veg. Varðandi málsmeðferðina í þinginu var hins vegar aldrei rætt neitt samkomulag, ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er með undarlegustum hætti, skulum við segja, að hér skuli (Forseti hringir.) vera hægt að koma upp aftur og aftur og tala um brot á samkomulagi sem aldrei hefur legið fyrir.